Breiðbandsvæðing landsins

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 16:47:32 (2028)

2002-12-03 16:47:32# 128. lþ. 44.14 fundur 46. mál: #A breiðbandsvæðing landsins# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um breiðbandsvæðingu landsins. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að ljúka skuli uppbyggingu fjarskipta- og gagnaflutninganets landsins á næstu þremur árum þannig að fyrirtæki, stofnanir og heimili hvar sem er í landinu hafi aðgang að bestu fáanlegu fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikum með breiðbandinu eða annarri jafngildri tækni. Landssímanum verði, einum sér eða eftir atvikum í samstarfi við aðra, falið að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar og endurbætur á grunnfjarskiptanetinu til að fyrrgreint markmið náist fram. Landssíminn verði undanþeginn arðgreiðslum til eigenda meðan á átakinu stendur.``

Hér er um endurflutta tillögu að ræða, herra forseti. Hún var lögð fram síðla á síðasta þingi eftir að niðurstaða var fengin um sinn í málefni Landssímans. Tillagan varð þá ekki útrædd og hún er nú endurflutt óbreytt enda málið í nákvæmlega sömu stöðu og það var þá. Það er sem sagt ljóst að ekki verður af sölu Landssímans í bráð. Þau ósköp sem á gengu í málefnum þess fyrirtækis og hin hörmulegu vinnubrögð sem þjóðin varð vitni að í sambandi við meinta sölu Landssímans biðu að lokum algert skipbrot. Það mál hrundi í höndunum á hæstv. ríkisstjórn og hún sá þann kost vænstan að falla frá áður áformaðri einkavæðingu Landssímans og sölu á hlut ríkisins, leysa þáverandi framkvæmdastjóra og stjórn frá störfum eða endurnýja ekki umboð þeirra og skipa þar til verka nýja menn sem vonir eru að sjálfsögðu bundnar við að takist að endurheimta traust á þessu annars ágæta fyrirtæki sem Landssíminn, áður Póstur og sími, er. Þar af leiðandi hafa skapast aðstæður til þess að beita á nýjan leik afli þessa fyrirtækis sem opinbers þjónustufyrirtækis í eigu landsmanna, nánast algerlega. Ríkið hefur gert þeim sem áður höfðu keypt hlut í fyrirtækinu í örlitlum mæli mögulegt að innleysa þann hlut, ef mönnum býður svo við horfa, og er eign annarra aðila en ríkisins sem eftir stendur í Landssímanum væntanlega orðin mjög óveruleg. Þar með getur Landssíminn á nýjan leik sinnt hlutverki sínu sem auðvitað er og á að vera að tryggja öllum landsmönnum aðgang að 1. flokks fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikum. Það sem tillagan í raun og veru gengur út á, herra forseti, er að gert sé átak til þess að Ísland verði, eða haldist, í fremstu röð á sviði fjarskipta og gagnaflutninga og að landsmenn sitji allir við sama borð í þeim efnum án tillits til þess hvar þeir búa á landinu.

Það má margt vel segja um það hvernig fyrirtækinu Pósti og síma tókst að gera hvort tveggja í senn, bjóða upp á sím-, fjarskipta- og gagnaflutningaþjónustu, sem að mörgu leyti hefur verið í fremstu röð, og jafnframt að bjóða þá þjónustu á tiltölulega viðunandi verði. Fyrirtækið var allvel í stakk búið til að sinna þessari þjónustu og gera það vel og rekstrarformið sem það sem hreint ríkisfyrirtæki hafði búið við um áratuga skeið gafst ekki verr en það.

Það er enginn vafi, herra forseti, að eftir sem áður og í fyrirsjáanlegri framtíð verður það hlutverk hins opinbera að tryggja fullnægjandi tækni- og flutningsgetu hvað varðar fjarskipti og gagnaflutninga og að tryggja að þessir möguleikar standi öllum til boða án tillits til búsetu í landinu. Enginn annar aðili en hið opinbera mun geta tryggt þetta. Það er niðurstaða allra sérfræðinga sem skoðað hafa þessa hluti. Það var niðurstaða vinnuhóps á vegum Norðurlandaráðs sem fjallaði ítarlega um upplýsingasamfélagið og skilaði um það skýrslu þar sem komið var m.a. inn á þessar skyldur stjórnvalda í málinu.

Það er einnig ljóst að það er ekki líklegt að gervihnattasambönd eða önnur tækni, þráðlaus tækni eða önnur, leysi ljósleiðara eða breiðband af hólmi á allra næstu árum hvað varðar almenn fjarskipti og gagnaflutninga í miklu magni. Þó að slík tækni geti rutt sér til rúms á afmörkuðum sviðum og leyst tiltekin mál er það sömuleiðis mat sérfræðinga að þegar um almenn umfangsmikil samskipti eða fjarskipti er að ræða og gagnaflutninga í miklu magni verði breiðbandið áfram undirstaða þeirrar starfsemi.

Á 126. löggjafarþingi lagði 1. flm. þessarar tillögu fram fyrirspurn um kostnað við ljósleiðaravæðingu landsins. Svar við þeirri fyrirspurn fylgir með sem fylgiskjal með þessari tillögu en reyndar er það því miður ófullkomið og frekar rýrt í roðinu þó að dregist hafi í marga mánuði að svara fyrirspurninni. Á því er ekki að græða beinar upplýsingar um kostnað í þessu sambandi þó að þar megi nálgast mat á þeim stærðum með ýmsum hætti, og ljóst er að allnokkurt átak þarf til að tryggja fullnægjandi tækni og gæði í þessum efnum. Í sumum tilvikum, herra forseti, liggja t.d. hjá Landssímanum og/eða Fjarskiptastofnun upplýsingar um úrbætur sem þyrfti að gera gagnvart einstökum landshlutum eða einstökum svæðum til þess að um fullnægjandi fjarskiptaþjónustu yrði þar að ræða. Þar eru oft ekki mjög háar tölur á ferð. Ég get sem dæmi nefnt að það er mat Landssímans að það kosti kannski 25--40 millj. kr. að leysa þessi mál með fullnægjandi hætti á norðausturhorni landsins. Þeir þéttbýlisstaðir sem þar eru og liggja utan ljósleiðaranetsins, staðir eins og Kópasker og Raufarhöfn, kæmust þá í viðeigandi tengingu, annaðhvort með lagningu ljósleiðara eða með öflugri örbylgjusamböndum eða öðrum slíkum aðgerðum.

En það þarf, herra forseti, ekki aðeins að tryggja tæknilega möguleika og gæði um allt land, það þarf líka að tryggja að verð sé hið sama án tillits til þess hvar menn eru á landinu. Það er eina ásættanlega niðurstaðan í þessum efnum með nákvæmlega sama hætti og sömu rökum og þegar menn börðust fyrir því á sínum tíma að jafna símkostnaðinn. Það hafðist að lokum að gera allt landið að einu gjaldsvæði í símþjónustu, með nákvæmlega sömu rökum á að gera hið sama hvað varðar nútímafjarskipti og gagnaflutninga. Það er mikið jafnréttismál og það á ekki að skipta þjóðinni upp í hópa og mismuna mönnum í þeim efnum. Það að tryggja að þetta sé tæknilega og pólitískt mögulegt á hið opinbera að gera. Þegar þetta hefur svo verið gert, tæknin er til staðar, nægjanlegir möguleikar og gæðin fullnægjandi, verðið að fullu jafnt, er síðast en ekki síst eftir að kappkosta að sjálfsögðu að gera öllum sem mögulegt er kleift að nýta sér þessa tækni og hafa hana á valdi sínu. Það er mikilvægt atriði í nútímasamfélagi að menn geti verið fullgildir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og nýtt alla þá fjölmörgu möguleika sem það býður upp á til að afla sér upplýsinga, sækja sér menntun, stunda atvinnu sína með fjarvinnslu á alnetinu o.s.frv.

Það er enginn vafi á því, herra forseti, að fjárfestingu af þessu tagi má væntanlega reikna upp á einhverja milljarða kr. Það er í sjálfu sér ekki mikið, og ljóst að öflugt fyrirtæki eins og Landssíminn, sem gerir upp með margra milljarða hagnaði á ári hverju, er vel í stakk búið til að ráðast í þessa fjárfestingu og væntanlega hafa síðan af henni ágætisarð. Að sjálfsögðu er um það að ræða að þegar tæknin er komin til sögunnar verður hún notuð. Oftast hafa allar áætlanir verið skakkar í þá áttina að notkunin verður miklu meiri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Hér yrði um afar arðsamar, skynsamlegar og framsæknar fjárfestingar að ræða og er ekkert því til fyrirstöðu að nota afl þessa fyrirtækis til að ganga í þessi verk.

Þetta grunnnet, þetta þjóðvegakerfi upplýsinga og gagna um landið, verður þá til staðar á komandi árum hvað sem líður öðrum breytingum á fjarskiptalöggjöf eða rekstrarumhverfi fyrirtækja á þessu sviði. Hvað sem líður samkeppni sem margir trúa á sem lausnarorðið í þessum efnum en hefur dálítið látið á sér standa getur aldrei orðið annað en stórkostlegt hagræði og gagn af því að hafa þessa undirstöðu, sjálft grunnnetið, uppbyggt og vel í stakk búið til að veita þá þjónustu sem þarf að vera til staðar.

Þessi málefni hafa verið skoðuð betur og lagt meira í þau á Norðurlöndunum en líklega nokkurs staðar annars staðar. Notkun alnetsins og ýmiss konar nútímafjarskiptatækni er einna útbreiddust í heiminum á Norðurlöndunum, og er það auðvitað vel og eins og það á að vera. Við ætlum okkur að vera í fremstu röð sem vel menntað og upplýst velmegunarsamfélag hér eftir sem hingað til. Þetta hefur þó líka haft það í för með sér að menn hafa horft svolítið á aðstæður út frá Norðurlöndunum í þessum efnum, skoðað hvað til þarf að koma til þess að ekki komi til mismununar milli íbúa landsins. Það á ekki síst við um Ísland sem fámennt land, við erum fámenn þjóð í stóru og strjálbýlu landi, og þess vegna þarf að nálgast þetta út frá grundvallarspurningum um jöfnuð, jafnrétti og jafnan aðgang manna að mikilvægum undirstöðugæðum í samfélagi nútímans. Með svona átaki í uppbyggingu fjarskipta- og gagnaflutninganetsins, breiðbandsins, yrði þessu að sjálfsögðu ekki lokið í eitt skipti fyrir öll því það verður að gera ráð fyrir áframhaldandi þróun, og flm. eru ekki svo barnalegir að þeir haldi að þetta sé eitthvað sem sé gert í eitt skipti fyrir öll. En það er enginn vafi á því samt að miðað við allar fyrirliggjandi upplýsingar væri um mjög mikilsverðan áfanga að ræða og í mörgum tilvikum og fjölmörgum dæmum sem ég veit að þingmenn þekkja vel af ferðum sínum um landið og samskiptum við einstaklinga, stofnanir, fyrirtæki og skóla er víða um að ræða mjög bagalega annmarka á núverandi kerfi hvað takmarkaða flutningsgetu eða takmörkuð gæði varðar. Menn hafa t.d. orðið að hverfa frá fjarkennsluverkefnum í ákveðnum byggðarlögum landsins vegna þess að samböndin eða tengingarnar voru ekki fullnægjandi. Síðan þarf að sjálfsögðu að halda áfram að fylgjast vel með og vera í fremstu röð hvað varðar áframhaldandi tækninýjungar og þróun á þessu sviði.

Það er þó rétt, herra forseti, að lokum kannski að minna menn á að mönnum hefur stundum orðið hált á að trúa bjartsýnustu spám um framþróun og tækniframfarir á þessu sviði. Það er ekki langt síðan menn stóðu á öndinni yfir því að þriðja kynslóð farsíma og slík gervihnattatækni væri að gera allt úrelt sem fyrir væri í þessum efnum. Það hefur heldur betur farið á annan veg eins og þeir menn þekkja sem fylgst hafa með. Þeir sem skrifað hafa miklar ritgerðir eða leiðara um hinn gríðarlega hagnað sem yrði af því að bjóða upp rásir fyrir þriðju kynslóð farsíma hafa lítið skrifað af slíkum pistlum upp á síðkastið vegna þess ósköp einfaldlega að þetta reyndist allt byggt á miklu meiri sandi og vera miklu óraunsærra hvað varðaði bæði viðskiptalega þætti og tæknilega en menn létu í veðri vaka fyrir tveim til fjórum árum. Nú er það aftur mat manna að þessi þróun verði að þessu leyti til hægari en þeir áður töldu og núverandi undirstöðutækni muni halda velli og halda gildi sínu í miklu ríkari mæli mörg næstu ár en menn töldu áður.

Þeim mun sjálfsagðara er það, herra forseti, að gera átak af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir. Það er enginn vafi á því að það væri í senn bæði róttæk og framsækin byggðaaðgerð. Þetta er líka jafnréttismál og í raun og veru mælir allt með því, að því einu tilskildu að menn vilji að hér í landinu búi ein þjóð við nokkuð sambærilegar aðstæður til þess að vera fullgildur þátttakandi í upplýsingasamfélagi samtímans.