Breiðbandsvæðing landsins

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 17:02:21 (2029)

2002-12-03 17:02:21# 128. lþ. 44.14 fundur 46. mál: #A breiðbandsvæðing landsins# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessari till. til þál. um breiðbandsvæðingu landsins sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flytjum. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að ljúka skuli uppbyggingu fjarskipta- og gagnaflutninganets landsins á næstu þremur árum þannig að fyrirtæki, stofnanir og heimili hvar sem er í landinu hafi aðgang að bestu fáanlegu fjarskipta- og gagnaflutningamöguleikum með breiðbandinu eða annarri jafngildri tækni. Landssímanum verði, einum sér eða eftir atvikum í samstarfi við aðra, falið að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar og endurbætur á grunnfjarskiptanetinu til að fyrrgreint markmið náist fram. Landssíminn verði undanþeginn arðgreiðslum til eigenda meðan á átakinu stendur.``

Herra forseti. Fjarskipti og nýting þeirrar tækni sem er grundvöllur fyrir nútímagagnaflutningum er forsenda fyrir jafnri aðstöðu einstaklinga og fyrirtækja hvar sem er á landinu. Fjarskipti er grunnstoðþjónusta sem við eigum að kappkosta að sé til staðar hvar sem er í byggðum landsins en góð fjarskiptaþjónusta og fjarskiptamöguleikar styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga og jafnframt líka búsetuskilyrði. Fjarskipti eru ein af grunnstoðum almannaþjónustu sem hið opinbera á að búa öllum landsmönnum hvar sem þeir búa og öllum atvinnurekstri óháð því hvar hann er rekinn. Þetta er forsenda fyrir því að við getum rekið virkt hagkerfi og sterkt þjóðfélag út um allt land, nýtt auðlindir þess og tryggt búsetu. Þetta tryggir líka hagvöxt og velferð alls staðar á landinu, ein af grunnstoðum þess að svo megi verða.

Virðulegi forseti. Landssíminn er í eigu ríkisins að langmestu leyti, ætli 90% séu ekki í eigu ríkisins, og ríkið á sem eigandi að beita því fyrirtæki sínu, beita styrk þess til að efla fjarskipti og fjarskiptaþjónustu um allt land og jafnframt að tryggja að sú þjónusta sé á jöfnu verði hvar sem hún er nýtt. Það eru fáar aðgerðir í byggða- og búsetumálum sem mundu koma sér betur en öflugt átak á þessu sviði.

Landssíminn skilar nú og hefur skilað á undanförnum árum tugum milljarða kr. í arðgreiðslur og tekjur til ríkisins. Þeim arði og þeim tekjum væri langbest varið til að byggja upp og tryggja öfluga og góða fjarskiptaþjónustu um allt land. Við eigum að nýta styrk Landssímans til þess að koma á öflugu fjarskiptaneti. Það er sú besta byggðaaðgerð, það er sú besta jöfnunaraðgerð sem við getum gripið til og jafnframt sú aðgerð sem mundi hafa eina stærstu þýðingu fyrir eflingu atvinnulífsins, styrkingu búsetu og hagvaxtaraukningu í landinu öllu.

Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er ein öflugasta aðgerð ef af verður til þess að styrkja atvinnulíf og búsetu í landinu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggjum áherslu á að styrkur Landssímans sé nýttur til þess að efla fjarskipti og fjarskiptatækni á landinu öllu og kostnaður við nýtingu þess sé óháður búsetu.