Samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:31:55 (2032)

2002-12-04 13:31:55# 128. lþ. 45.91 fundur 293#B samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 128. lþ.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sé mig tilknúinn að biðja um orðið undir liðnum um störf þingsins til að inna hæstv. ríkisstjórn eða forustu þingsins eftir því hvort það sé virkilega ætlunin að standa þannig að málum að 3. umr. og afgreiðslu fjárlaga ljúki án þess að nokkuð bóli á einum mikilvægasta verkefnaflokki ríkisins og ákvörðunum um hann fyrir næsta ár, þ.e. vegáætlun eða samræmdri samgönguáætlun sem búið var að lofa að kæmi fyrir þingið strax í haust.

Því var lofað að samgönguáætlunin mundi hljóta afgreiðslu fyrir áramót samhliða fjárlagafrv., eins og þessu var lýst fyrir okkur á vordögum. Þá var mikið um dýrðir, þegar hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin var að kynna hina glæsilegu tillögu sína um samræmda samgönguáætlun. Okkur var heitið nýjum og betri vinnubrögðum í þessu máli, skilvirkum og markvissum þar sem allar samgöngur yrðu felldar saman, allir þættir þeirra felldir saman í eina heildstæða áætlun og allt saman afgreitt með pomp og prakt og á réttum tíma.

Nú er að vísu hæstv. samrh. ekki staddur, það ég best fæ séð, í salnum. En nóg er af oddvitum ríkisstjórnarinnar sem geta þá væntanlega upplýst eitthvað um málið. (Gripið fram í: Formaður samgn.) Og formaður samgn. En það er kannski varla við formann samgn. að sakast þó að ríkisstjórnin hafi ekki komið frá sér þeim tillögunum sem henni ber lögum samkvæmt.

Þessar framkvæmdir og allur undirbúningur þeirra á að fara samkvæmt ákveðnum lögum og það er skylda ríkisstjórnarinnar að leggja tillögur fyrir þingið um þessa framkvæmd. Nú er engin áætlun í gildi fram undan. Frá og með 1. janúar nk. hangir þetta allt saman í lausu lofti. Það er auðvitað afar bagalegt, herra forseti.

Við vitum einnig að þingið verður stutt eftir áramótin. Í þriðja lagi bólar ekkert á mikilvægum ákvörðunum sem þessum málum tengjast, t.d. útboði á hinum miklu jarðgangaframkvæmdum fyrir norðan og austan. Það er þess vegna óumflýjanlegt, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn upplýsi um stöðu þessara mála áður en 3. umr. fjárlaga hefst.