Samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:38:18 (2036)

2002-12-04 13:38:18# 128. lþ. 45.91 fundur 293#B samgönguáætlun og 3. umræða fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var svo sem ekki von á öðru en hæstv. forsrh. væri ánægður með ríkisstjórnina sína og framgöngu hennar. Það er sama hvers konar sleifarlag er þar á ferðinni. Þetta jaðrar við að vera jafnfullkomið og vinnubrögð einkavæðingarnefndar, þegar forsrh. er að lýsa þeim.

Í staðinn fyrir að koma og biðja þingið afsökunar á því að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við lögbundnar skyldur sínar um að leggja fyrir þingið till. til þál. um vegáætlun eða samræmda samgönguáætlun eins og það á að heita, er sagt að þetta sé allt í himnalagi, eiginlega bara alveg fullkomið vegna þess að henni verði sennilega dreift hérna í vikunni. Kannski á föstudaginn um svipað leyti eða rétt eftir að við greiðum atkvæði að lokinni 3. umr. um fjárlög. Þetta stenst ekki lagafyrirmæli og hefðir sem átti að skapa með skipulögðum vinnubrögðum að þessu leyti. Þetta hefur náttúrlega aldrei þótt góð latína.

Nú liggur fyrir og hefur verið boðað, eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, t.d. inni í samgn., að þar kunni að vera í vændum verulegar breytingar á fjárhæðum til einstakra málaflokka innan samgöngugeirans og þar fram eftir götunum. Heyrst hafa sögusagnir um að hæstv. ríkisstjórn eða stjórnarliðar hafi jafnvel haft í höndunum spurninguna um hvort staðið verði við hin stóru áform og eitt sameiginlegt útboð fyrir jarðgangaframkvæmdir fyrir norðan og austan. Maður hlýtur að spyrja: Hvað hefur dvalið orminn langa? Hvers vegna tekur þetta svona langan tíma? Er það mannaflaleysi í samgrn.? Er þetta sleifarlag, verkleysi eða ósamkomulag?

Eru einhverjar hindranir í vegi þess að ríkisstjórnin komi tillögunni frá sér? Sé svo á Alþingi auðvitað heimtingu á að vita hver staða málsins er þannig að það sé ekki afgreitt í fullkominni hengjandi óvissu um hvað kunni að vera í vændum ef skortur er á því að ríkisstjórnin komi þessu frá sér af pólitískum ástæðum. Ég hefði því gjarnan viljað að hæstv. forsrh. reyndi að tala aðeins skýrar í þessum efnum.