Endurreisn Þingvallaurriðans

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:48:28 (2038)

2002-12-04 13:48:28# 128. lþ. 46.1 fundur 165. mál: #A endurreisn Þingvallaurriðans# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og menn vita er nokkurt ójafnræði hér á milli spyrjandans og þess sem er til andsvara í máli þessu. Þó að það fái ekki kennslufræðileg fegurðarverðlaun verður samt eggið að reyna að kenna hænunni í þessu tilviki, er þá svarandinn í hlutverki eggsins og er það ekki öfundsvert.

Ég verð að svara því strax þannig að nefnd þessi var ekki skipuð, enda mun það vera svo að menn vildu hreyfa þessu máli og koma af stað og það hefur farið af stað með nokkrum ágætum. Í svari mínu byggi ég á upplýsingum frá Veiðimálastofnun sem Magnús Jóhannsson fiskifræðingur hefur tekið saman. Frá því að þetta mál var rætt á Alþingi hefur verið stofnað til tveggja rannsóknarverkefna sem tengjast aukinni þekkingu á hegðun og vistkerfi Þingvallaurriðans og möguleikum til að endurreisa stofninn.

Annað verkefnið hófst árið 1999 og miðar að því að kortleggja nánar umhverfi og atferli Þingvallaurriðans í Þingvallavatni og Öxará. Með merkingum á urriðanum hefur í fjögur ár verið fylgst með ferðum urriðans og ferli hans skráð að degi sem nóttu á öllum árstíðum. Þannig hafa náðst mikilvægar upplýsingar um hvar urriðinn heldur sig á hverjum tíma og hvað hann aðhefst. Jóhannes Sturluson, starfsmaður Veiðimálastofnunar, hefur unnið að og stjórnað verkefninu. Rannís og Þingvallanefnd hafa styrkt verkefnið.

Hitt verkefnið er að tilhlutan Landsvirkjunar í samvinnu við Veiðifélag Þingvallavatns. Það miðar að því að skapa á ný skilyrði til hrygningar og uppeldis fyrir urriða í útfalli Þingvallavatns. Hafa þær aðgerðir m.a. falið í sér að koma þar fyrir möl sem talin er henta til hrygningar fyrir urriða, hrogngreftri og sleppingum urriðaseiða. Markmiðið með þessum aðgerðum er að þar geti orðið sjálfbær urriðastofn. Veiðimálastofnun hefur komið að þessum aðgerðum og jafnframt stundað rannsóknir á árangri þeirra ásamt rannsóknum á fiskstofnum vatnsins. Þar er megináherslan lögð á vöktun fiskstofnanna með tilliti til sleppinga.

Þá hefur verið lögð áhersla á að auka almenna þekkingu á lífsháttum urriða í vatninu. Magnús Jóhannsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, hefur haft umsjón með þessum rannsóknum.

Rannsóknir hafa sýnt að allnokkur hrygning og uppeldi urriða er í Öxará, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, sem er nú mestur sérfræðingur um efnið. Þar virðist vera aðalhrygningarstaður urriða í Þingvallavatni. Mjög lítið uppeldi er í Grafningsánum, Ölfusvatnsá og Villingavatnsá. Vonast er til að með þeim aðgerðum sem hér hefur verið lýst og frekari aðgerðum skapist skilyrði fyrir sjálfbæran stofn sem hrygnir í útfalli vatnsins.

Til skoðunar er nú hjá Landsvirkjun í samráði við Veiðimálastofnun að gera varanlegt skarð í stíflu í útfalli Þingvallavatns þar sem tryggt yrði lágmarksrennsli og um leið sköpuð skilyrði til hrygningar ofan við skarðið. Ljóst er að sú vitneskja sem fengist hefur af þessum tveimur rannsóknarverkefnum, sem nefndinni að vísu var ætlað að gangast fyrir, mun gagnast mjög í framtíðinni. Auðvitað getur enn komið til álita að skipa nefnd af þessi tagi fýsi menn til þess.