Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 13:58:10 (2042)

2002-12-04 13:58:10# 128. lþ. 46.2 fundur 91. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fulltrúar Noregs voru sem kunnugt er kosnir til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2001--2002. Jafnframt hlaut fulltrúi Noregs kosningu sem formaður viðskiptabannsnefndar öryggisráðsins gagnvart Írak.

Eftir að Norðmenn tóku sæti í öryggisráðinu beittu þeir sér fyrir endurskoðun viðskiptabannsins enda hafði gagnrýni á framkvæmd þess vaxið. Í framhaldi af því samþykkti öryggisráðið samhljóða hinn 14. maí sl. ályktun nr. 1409 þar sem gildandi viðskiptabanni var breytt. Breytingin þýðir að í reynd er allur innflutningur heimilaður að undanskildum hergögnum og vopnabúnaði sem og vörum sem hugsanlegt er að nýta í hernaðarlegum tilgangi. Íslensk stjórnvöld studdu þessa endurskoðun og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fylgdist eins náið og kostur er með þessu endurskoðunarstarfi.

Málefni Íraks hafa einnig verið til umfjöllunar á norrænum utanríkisráðherrafundum og hafa Norðmenn þá jafnan gert grein fyrir stöðu Íraksmálsins á hverjum tíma í öryggisráðinu. Ísland og önnur Norðurlönd hafa þar komið sjónarmiðum sínum að og veitt þann stuðning sem þau hafa getað við þá vinnu sem Norðmenn hafa innt af hendi í tengslum við endurskoðun viðskiptabannsins.

Eins og allir vita er Íraksmálið í mjög viðkvæmri stöðu sem stendur. Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa nú loks getað hafið störf á nýjan leik í Írak í samræmi við nýja og afar ákveðna ályktun öryggisráðins nr. 1441, um vopnaeftirlit í Írak. Ef Írak fer að ályktuninni í hvívetna þannig að óyggjandi sé að landið búi ekki yfir gereyðingarvopnum og ætli sér ekki að þróa þau verður viðskiptabanninu væntanlega aflétt. Til þess að hægt sé að sannreyna slíkt þurfa vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna að geta gengið tryggilega úr skugga um að Írakar hvorki hafi undir höndum né séu að þróa gereyðingarvopn. Fyrr er þess ekki að vænta að refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna gegn Írak verði aflétt.