Hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:10:07 (2046)

2002-12-04 14:10:07# 128. lþ. 46.3 fundur 144. mál: #A hjúkrunardeild fyrir aldraða í Árborg# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Auðvitað metum við þingmenn sem störfum í Suðurkjördæmi áhuga ráðherrans og að hann skuli meta áhuga okkar á þessu máli. Staðreyndin er hins vegar sú að aðstaða fyrir sjúka aldraða og hjúkrun þeirra í Ljósheimum er með slíkum eindæmum að við hljótum öll að hafa komist við sem því höfum kynnst. Það er ein sú lakasta aðstaða sem við höfum séð á landinu. Þess vegna viljum við ganga nánar eftir svörum ráðherrans ef hann gæti veitt okkur upplýsingar um hvenær hann telji líklegt að samningar takist um þá fyrirhuguðu nýbyggingu við sjúkrahúsið á Selfossi sem hann nefndi. Hvenær hann telji að byggingarframkvæmdir geti hafist. Við og umbjóðendur okkar þurfum vissu um fleira en að útboð hefjist eftir næstu áramót eða stefnt sé að því. Hvenær hann telji að ný deild geti tekið til starfa. Það eru meginatriði. Það er ekki nægjanlegt að stefna að útboði. Við þurfum að hafa meira í höndunum og fólkið sem býr við þessar aðstæður þarf betri svör.