Öldrunarstofnanir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:29:34 (2055)

2002-12-04 14:29:34# 128. lþ. 46.4 fundur 296. mál: #A öldrunarstofnanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega þessari umræðu og bendi á að ég hef margoft rætt um þessi mál í þinginu, fyrst árið 1996 er ég lagði fram þáltill. um könnun á áhrifum breyttra hlutfalla aldurshópa eftir árið 2010. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að styrkja hag þess fólks og undirbúa samfélagið með tilliti til þeirra breytinga sem eru að verða.

Á árabilinu frá 1970 voru 65 ára og eldri um 5,9% þjóðarinnar, 1995 voru þeir 11,3% og árið 2030 er gert ráð fyrir að um 19% þjóðarinnar verði komin á þennan aldur. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að skapa samfélag þar sem þessi mál eru vel undirbúin. Á Vesturlöndum er svo komið að um tveir vinnandi menn eru fyrir hvern eftirlaunaþega.

Þess vegna fagna ég sérstaklega þessari umræðu. Þegar ég lagði þetta fram í fyrsta skipti höfðu menn tilhneigingu til að snúa örlítið út úr tillögunni, eins og ég væri að berjast eitthvað gegn þessari þróun. Fyrst og fremst þurfum við að undirbúa samfélagið að þessu leyti, herra forseti.