Öldrunarstofnanir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:33:32 (2058)

2002-12-04 14:33:32# 128. lþ. 46.4 fundur 296. mál: #A öldrunarstofnanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Flm. ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum umræðuna hér á undan. Það vekur athygli í svörum hæstv. ráðherra hve mikill munur er á hlutfalli aldraðra á stofnunum milli landshluta, þ.e. höfuðborgarsvæðið versus landsbyggðin. Það er nánast helmingsmunur á hlutfalli aldraðra sem eru á stofnunum í Reykjavík annars vegar og úti á landsbyggðinni hins vegar, hvort heldur litið er til þeirra sem eru 67 ára og eldri eða 80 ára og eldri.

Það staðfestist líka í tölum hæstv. ráðherra að mikill munur er þar á, mikill munur milli Íslands annars vegar og annarra Norðurlanda hins vegar. Ég kom hérna fram með tölur frá Norðurlöndum sem sýndu verulega lægri tölur. Reyndar eru tölur frá ráðherranum um að 27,8% þeirra sem eru 80 ára og eldri séu á öldrunarstofnunum ekki í samræmi við þær upplýsingar sem koma fram í heilbrigðisáætlun. Þar kom fram 35%. Það er því spurning hvað þar er skilgreint sem öldrunarstofnanir.

Á síðustu árum hefur orðið gjörbylting í húsnæðismálum aldraðra. Margir hafa keypt sér íbúðir t.d. í fjölbýlishúsum sem eru sérstaklega hannaðar með þarfir þeirra í huga. Flestir þeirra mundu kjósa að fá að vera heima hjá sér eins lengi og kostur er og fá til þess nauðsynlegan stuðning frá opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum. Fyrir utan heilsufarsástæður er óöryggi og einmanaleiki ein meginástæða þess að fólk óskar eftir plássi á öldrunarstofnun. Því er engum blöðum um það að fletta að óskir eldri borgara um að vera heima hjá sér eins lengi og kostur er, og þá með nægilegum stuðningi, byggja jafnt á fjárhagslegum, félagslegum og heilsufarslegum sjónarmiðum.

Í fjárhagslegum skilningi er t.d. margfalt hagkvæmara að auka úrræði til að styðja við einstaklinginn og fjölskylduna til að njóta ævikvöldsins heima hjá sér, þ.e. ef heilsufars\-ástæður leyfa, heldur en að beina þeim á öldrunarstofnanir, sem þó þarf að gera þegar brýna nauðsyn ber til. Úrræði eins og aukin heimahjúkrun, heimaþjónusta, dagvistun og hvíldarinnlagnir eru til þess fallin að taka við áherslubreytingum.