Eyrnasuð

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:45:15 (2063)

2002-12-04 14:45:15# 128. lþ. 46.5 fundur 363. mál: #A eyrnasuð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eyrnasuð er, eins og ég sagði, ekki sjúkdómur heldur einkenni og það eru mjög margir sem hafa þessi einkenni en leita ekki til læknis til að fá úrlausn þar sem vitað er að hún er ekki fyrir hendi í dag. Þverfaglegt teymi innan Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar væri mjög til bóta og raunar tel ég að eina raunhæfa leiðin sé að efla Heyrnar- og talmeinastöðina og veita þessa þjónustu þar. En þar fyrir utan þarf að veita meira fjármagn til Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar því það virðist vera að sigla í sama horf og áður, fjármagn til heyrnartækja fullnægir ekki þeirri þörf sem er fyrir heyrnartæki og þjónustu heyrnarskertra í dag, hvað þá ef við ætlum að bæta þessum hópi við því að svokölluð heyrnartæki eru meðal nothæfra úrlausna fyrir þetta fólk. Lyf gagnast sumum sem verst eru haldnir en það þarf sérfræðiþekkingu til að nota lyfjameðferð og velja úr. Þess vegna hvet ég ráðherra til að hraða vinnu nefndarinnar og koma á þverfaglega teymi þannig að það verði komið í gagnið á næsta ári.