Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:50:00 (2065)

2002-12-04 14:50:00# 128. lþ. 46.6 fundur 366. mál: #A Heilbrigðisstofnun Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Þannig er að íbúar á Suðurnesjum hafa haft ástæðu til þess að hafa nokkrar áhyggjur af framgangi mála á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á þessu ári, sérstaklega þessu missiri sem er um það bil að ljúka. Af þeim sökum legg ég fram fyrirspurn í tveimur liðum til hæstv. heilbrrh.

Um fyrri liðinn verður að segja að nýleg úttekt á fjárhagsmálum stofnunarinnar virðist hafa leitt í ljós að stjórnendur hennar hafa talið sér nauðsyn að nýta fé af fjárveitingum sem ætlaðar voru til rekstrar og þjónustu til nýbyggingar D-álmunnar þegar þeir stóðu frammi fyrir því að nauðsynlegir þættir í framkvæmdakostnaði við bygginguna hefðu fallið niður eða voru ekki tilteknir í framkvæmdasamningi við verktaka.

Um seinni liðinn vil ég segja að deilur heilsugæslulækna eða heimilislækna vegna réttinda til starfa á eigin vegum hafa orðið til þess að í svo harðan hnút hljóp deilan að þeir gengu út. Spurningarnar tvær sem ég legg fram í þessum tveimur liðum eru þannig:

1. Hvernig hyggst ráðherra tryggja að D-álma við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja komist í gagnið eins og miðað var við með fjárveitingum á þessu ári?

2. Hvernig hyggst ráðherra tryggja starfsemi heilsugæslustofnunarinnar eftir að heimilislæknar hafa horfið frá störfum við hana?