Krabbameinssjúkdómar í meltingarvegi

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:00:07 (2070)

2002-12-04 15:00:07# 128. lþ. 46.7 fundur 367. mál: #A krabbameinssjúkdómar í meltingarvegi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Hv. þm. Árni Ragnar Árnason hefur beint til mín fyrirspurn um forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi.

Á síðasta þingi samþykkti Alþingi þál. um forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum og fól heilbrrh. í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem telja sig í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Fyrirspurn hv. þm. beinist að framvindu varðandi framkvæmd áðurgreindrar ályktunar.

Í framhaldi af þáltill. var henni beint áfram til landlæknis og farið fram á það við hann að hann gerði umræddar tillögur. Ráðuneytinu var jafnframt kunnugt um að landlæknir hafði skipað starfshóp snemma á árinu 2000 til að vinna að slíkum leiðbeiningum um skimun fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi.

Ráðuneytinu barst í september sl. bréf frá landlækni þar sem hann greindi frá störfum áðurnefnds starfshóps, sem unnið hafði að tillögum um skimun fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi. Höfðu landlækni borist tillögur starfshópsins um hinar faglegu áherslur í skimuninni.

Sterk fagleg rök virðast hníga að því að tekin sé upp skimun fyrir þessum alvarlega sjúkdómi hér á landi. Að mati landlæknis voru næstu skref að finna skimuninni farveg og ákveða hvernig henni yrði best fyrir komið. Í því sambandi má geta þess að skimanir af þessu tagi eru hvergi framkvæmdar í nágrannalöndunum á landsvísu. Í tillögunni er gert ráð fyrir að fólki í meðaláhættu verði boðið upp á skimun með leit að blóði í saur og verði því síðan fylgt eftir með ristilspeglun sé talin ástæða til slíks.

Mjög mikilvægt er að skimun af þessu tagi sé vel skipulögð og niðurstöðurnar skráðar í miðlægum grunni. Í framhaldi af tillögu landlæknisembættisins hefur verið unnið að frumkostnaðaráætlun vegna skimunarinnar á vegum embættisins. Er þess vænst að hún liggi fljótlega fyrir og málið verði þá kynnt ráðherra frekar.

Herra forseti. Mikilvægi þessa máls er ljóst. Að meðaltali greinast um 112 einstaklingar hér á landi árlega með þessi krabbamein og um 40 sjúklingar deyja af þeirra völdum árlega og er þriðja algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal Íslendinga. Nýgengi hefur aukist síðustu áratugi.

Hv. þm. hefur því vakið hér máls á mikilvægu máli. Á sama hátt er mikilvægt að vel verði vandað til allra verka. Ég hyggst því skoða málið nánar þegar endanlegar tillögur hafa borist frá landlæknisembættinu og tel rétt að bíða með frekari ákvarðanatöku þangað til þær liggja endanlega fyrir.