Safn- og tengivegir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:10:27 (2075)

2002-12-04 15:10:27# 128. lþ. 46.8 fundur 290. mál: #A safn- og tengivegir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini spurningum mínum til hæstv. samgrh. varðandi safn- og tengivegi og styrkvegi á landinu.

Vegakerfi landsmanna er skipt upp í flokka. Því er skipt upp í stofnbrautir eða stofnvegi, tengivegi, landsvegi og safnvegi. Þetta er þjóðvegakerfið en svo eru aðrir vegaflokkar eins og styrkvegir sem njóta einungis framlaga af hálfu hins opinbera eftir því sem tök eru á.

Hlutur safn- og tengivega, þ.e. svokallaðra sveitavega, er afar mikilvægur í samgöngukerfi landsmanna. Þetta eru þeir vegir sem tengja einstök býli við aðalstofnvegina og þeir skipta orðið gríðarlega miklu máli, bæði fyrir það að margt fólk býr á jörðum og sækir atvinnu til næsta þéttbýlis, börnum er ekið í skóla um langan veg og auk þess eru þessir vegir mikilvægir til daglegra aðdrátta og í ferðamannaiðnaði. Það skiptir því miklu máli að hlutur þessara sveitavega, safn- og tengivega, sé sem mestur í heildarfjárveitingum til vegamála í landinu.

Til þess að fá upplýsingar um hvernig þeir hafa staðið sig í fjármögnuninni hef ég lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. samgrh.:

1. Hver er nú heildarlengd safnvega, tengivega og styrkvega á landinu?

2. Hvert hefur fjárframlag verið til þeirra sl. fimm ár og hver hefur verið hlutur þeirra miðað við heildarframlag til viðhalds- og stofnkostnaðar í vegamálum á landinu þessi ár að meðtöldum sérstökum fjárveitingum til stórverkefna?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hlutur þessara vega, þ.e. sveitaveganna, verði aukinn í heildarfjárveitingum til viðhalds- og stofnkostnaðar í vegakerfi landsins?

4. Mun ráðherra beita sér fyrir endurskilgreiningu á heitum einstakra vegaflokka í vegalögum, svo sem styrkvega, með tilliti til breyttra aðstæðna?

Virðulegi forseti. Fátt er mikilvægara til að efla og styrkja búsetu í landinu öllu og tryggja þar jöfnuð og samkeppnishæfni en gott vegakerfi. Mikilvægi þessara vega, sveitaveganna, fer sívaxandi eins og sést af rökum sem ég nefndi áðan. Það er því afar mikilvægt að hlutur sveitaveganna í viðhaldi og endurbyggingu vegakerfis landsins sé heldur vaxandi en hitt sem hluti af heildarþjóðvegakerfi landsins. Því hef ég lagt þessar spurningar, virðulegi forseti, fyrir hæstv. samgrh.