Safn- og tengivegir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:24:05 (2081)

2002-12-04 15:24:05# 128. lþ. 46.8 fundur 290. mál: #A safn- og tengivegir# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra hversu ríkur vilji er hjá þingmönnum til að leggja aukna fjármuni til samgöngubóta og þá sérstaklega uppbyggingar vegakerfisins en þegar til kastanna kemur er það fjárhagsramminn sem Alþingi setur okkur sem ræður þar för. Hversu ríkur sem viljinn er til þess að hygla einum flokki vega umfram aðra þá erum við bundin af þeim fjárhagsramma sem við höfum.

Það er alveg ljóst að ef við viljum leggja aukna áherslu á uppbyggingu safnvega eða tengivega, ég tala nú ekki um styrkvega, þá verður það að gerast á kostnað annarra þátta í vegakerfinu. Þar er af ýmsu að taka. Það eru ekki bara nýbyggingar heldur líka viðhald, vetrarviðhald t.d. sem hefur verið að stóraukast og er afar mikilvægt að vetrarviðhaldi sé sinnt vel en það kostar mjög mikla fjármuni. Það liggur alveg fyrir.

Sama er að segja af fjárlögum og þeim þætti sem fjárlög leggja til vega- og samgöngumála. Við tökum styrki til ferja og flugs og sérleyfishafa, þannig að hvert sem litið er er fjárþörfin til staðar. Ég get alveg tekið undir að gera þarf heilmikið átak í uppbyggingu stofnvega og tengivega. Eins og fram kom hjá mér tel ég eðlilegt að við skoðum það í vetur hvort breyta eigi þessari flokkun en flokkunin er gerð til þess að leggja faglegt mat á vegakerfið út frá notkuninni, út frá byggðinni sem er nærliggjandi og þar með þörfinni fyrir öfluga vegi.