Hækkun póstburðargjalda

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:26:47 (2082)

2002-12-04 15:26:47# 128. lþ. 46.9 fundur 327. mál: #A hækkun póstburðargjalda# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Í júlí sl. breyttist gjaldskrá Íslandspósts hf. þannig að felldur var niður sérstakur flokkur fyrir dreifingu á blöðum og tímaritum og slík dreifing felld undir almennan bréfapóst. Þetta þýðir að þegar þessi breyting er komin að fullu til framkvæmda hækkar dreifingarkostnaður útgefenda um allt að 200--300%, mismikið eftir því hversu stór hluti dreifingarinnar var innan svæðis og hversu stór hluti utan svæðis en með breytingunni er um eitt gjald að ræða bæði utan og innan svæðis. Íslandspóstur hf. hefur reyndar boðið útgefendum aðlögunartíma en þessi aðlögun er mjög misjöfn eftir því hver á í hlut.

Ljóst er að þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir félagslega útgáfu í landinu og það má benda á ítarlega úttekt sem gerð var í BSRB-tíðindum sl. september. Þar kom fram að kostnaður félagasamtaka eins og Öryrkjabandalagsins hækkar úr 400 þús. kr. í 1,3 millj. kr. á hvert tölublað þegar breytingin verður komin fram að fullu en þessi blöð eru gefin út í um 20 þúsund eintökum. Sama á reyndar við um BSRB-tíðindin.

Í greinargerðinni eða þessari umfjöllun blaðsins er vitnað í ritstjóra landsbyggðarblaða. Sigurjón Sigurðsson hjá Bæjarins besta á Ísafirði sagði að þetta mundi hafa mjög alvarleg áhrif á útgáfu héraðsfréttablaða sem þjónuðu mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni. Gísli Valtýsson hjá Fréttum í Vestmannaeyjum sagði að þessi hækkun þýddi um 950 þús. kr. kostnaðarhækkun við útgáfu blaðsins. Bjarni Harðarson hjá Sunnlenska fréttablaðinu sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ég tel að þetta geti gengið að svona blaðaútgáfu dauðri. Hjá mér þýða þetta ný útgjöld upp á 2 millj. kr. á ári en reksturinn hefur staðið í járnum.``

Í ljósi allra þessara upplýsinga ritaði BSRB hæstv. samgrh. bréf í lok september og spurði hvað hann hygðist fyrir og var boðin fram aðstoð eða hlutdeild að nefndarskipan þar sem farið væri yfir þessi mál. Hæstv. ráðherra sagði að starfandi væri sérstakur starfshópur sem hefði þetta til skoðunar en síðan hefur ekkert heyrst frá þeim hópi. Því er spurt nú:

Til hvaða ráða verður gripið til að sporna gegn því að hækkun póstburðargjalda lami blaðaútgáfu á vegum félagasamtaka og aðra útgáfu, svo sem landsmálablöð sem hafa nýtt sér dreifikerfi póstsins?