Hækkun póstburðargjalda

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:35:39 (2084)

2002-12-04 15:35:39# 128. lþ. 46.9 fundur 327. mál: #A hækkun póstburðargjalda# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Hér hefur verið vakin athygli á máli sem hefur verið til umræðu um nokkurn tíma. Það kom einmitt fram í ræðu hæstv. samgrh. að sá sem hér stendur er einmitt í hópi þeirra sem velta þessum málum fyrir sér. Sú nefnd hefur skoðað marga möguleika og hefur m.a. komið fram að í nágrannalöndum okkar, t.d. Danmörku og reyndar Austurríki, er notast við sérstakt niðurgreiðslukerfi í þessu sambandi. Starfshópurinn mun skila niðurstöðum áður en langt um líður. Við erum langt komin með þessa vinnu. Mér sjálfum finnst koma mjög vel til greina að niðurgreiða þessa þjónustu vegna þess að það er auðvitað mjög brýnt að héraðsfréttablöð séu rekin vítt og breitt um landið. Á sama hátt er mjög nauðsynlegt fyrir félagasamtök að senda út efni til félaga sinna. Það er mín persónulega skoðun að mér finnst mjög vel koma til greina að niðurgreiða þessa þjónustu.