Hækkun póstburðargjalda

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:36:50 (2085)

2002-12-04 15:36:50# 128. lþ. 46.9 fundur 327. mál: #A hækkun póstburðargjalda# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það að dreifing á blöðum og tímaritum sé orðin svo dýr að að óbreyttu verði sú starfsemi lögð niður er hrikaleg staða. Það er ógnun við lýðræðið og þau tjáskipti sem við viljum í landinu. Vandinn sem við eigum hér við að glíma er sá að það er farið að flokka póstþjónustuna sem atvinnurekstur í staðinn fyrir almannaþjónustu og þar liggur vandinn.

Það þýðir ekkert að skipa starfshóp nema honum séu send pólitísk skilaboð. Það sem skiptir máli er: Viljum við halda úti þessari þjónustu sem sameiginlegri þjónustu allra landsmanna, að landið allt, íbúar þess hvar sem þeir búa, eigi jafnan rétt til þessarar þjónustu? Viljum við komast hjá því að flokka landið í svæði og svo þjónustuna eftir því? Við erum ein þjóð í einu landi og það á að gilda líka varðandi póstþjónustuna.