Samkeppnisstaða háskóla

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 15:58:16 (2095)

2002-12-04 15:58:16# 128. lþ. 46.11 fundur 319. mál: #A samkeppnisstaða háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur menntmrn. lagt vinnu í að skilgreina með hvaða hætti fjárveitingum til kennslu í háskólum skuli háttað. Þróað hefur verið reiknilíkan um fjármögnun til kennslu og hefur ráðuneytið gert samninga við alla háskóla á grundvelli þess. Það er sameiginleg niðurstaða háskólanna og ráðuneytisins að fjárframlag til kennslu skólanna skuli áfram byggjast á slíku reiknilíkani enda hefur það reynst vel. Það leiðir af eðli þessarar starfsemi að þróun þeirrar vinnu heldur áfram á næstu árum.

Fjárframlög til rannsókna í háskólunum eru mismunandi og ekki hefur verið úthlutað fjárframlögum til rannsókna á grundvelli reiknilíkans eins og til kennslu. Framlög til rannsókna verður að skoða í ljósi þróunar heildarfjárveitinga til einstakra skóla.

Gera má ráð fyrir að rannsóknaþáttur háskólanna vaxi í takt við þróun þeirra á komandi árum. Mikilvægt er að athuga gaumgæfilega hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar þegar ákveðið er hvernig rannsóknafé er skipt á milli háskólastofnananna. Hafa verður í huga eðli og umfang rannsókna, hvort sem um er að ræða grunn- eða hagnýtar rannsóknir eða slíkar rannsóknir í bland við tækniþróun og nýsköpun. Framlög til rannsókna í einstökum skólum taka óhjákvæmilega mið af sérhæfingu skólanna og hlutverki þeirra.

Undanfarinn áratug hefur orðið bylting á framboði náms á háskólastigi á Íslandi. Rannsóknir hafa einnig stöðugt sótt í sig veðrið og nú er svo komið að unnin ársverk í þessum geira þjóðlífsins skipta þúsundum, og miklum fjármunum er varið til málaflokksins.

Uppbyggingu á háskólastiginu hefur ekki verið miðstýrt af stjórnvöldum, heldur hafa háskólastofnanirnar orðið til og komið til móts við nýjar óskir og þarfir eftir því sem þær hafa haft frumkvæði og bolmagn til. Þessu fylgja bæði kostir og gallar. Kostirnir eru þeir að háskólastofnunum er sjálfum falin ábyrgð á að meta þörf fyrir námsframboð hverju sinni og jafnframt er þeim gert kleift að mæta þeim þörfum, sem eru síbreytilegar, að undangenginni athugun menntmrn. á óskum skólanna um framboð náms. Það má færa gild rök fyrir því að engum sé betur treystandi fyrir því mati en stofnununum sjálfum, að meta þessar þarfir og þjóna þeim.

[16:00]

Rannsóknir fara nú fram víða og háskólamenntun er veitt af fleirum en áður. Aukin samkeppni stofnana um fjármagn þýðir að nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld að tryggja að ávallt sé fyrir hendi heildstætt yfirlit yfir fjárstreymi á háskólastiginu, hvort heldur sem er til kennslu eða rannsókna. Skipting fjár verður að vera gagnsæ enda er það grundvallarkrafa í opinberri stjórnsýslu að einfalt sé að rekja hvernig peningum skattborgaranna er varið.

Í menntmrn. er nú hafin vinna við að gera heildstæða úttekt á fjárstreymi til kennslu og rannsókna á háskólastigi. Fyrsta áfanga þeirrar vinnu er ætlað að leiða í ljós hvort ástæða sé til að endurskoða núverandi fyrirkomulag og skiptingu fjárveitinga til háskólastigsins.

Þegar spurt er hvort ráðherra hyggist jafna samkeppnisstöðu ríkisháskóla og einkaskóla er nauðsynlegt að svara því fyrst hvort menn hafa skýrar hugmyndir um á hvern er hallað í þeirri samkeppni. Í tilviki Háskóla Íslands er ljóst að uppbygging hans í bráðum heila öld hefur verið kostuð af ríkisvaldinu og sem stendur er hann eini háskólinn sem hefur markaðar fjárveitingar í sérstökum rannsóknasamningi til rannsókna sem aðrar háskólastofnanir hafa ekki haft. Aðrir ríkisháskólar, þ.e. Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands og Tækniháskóli Íslands, hafa einnig byggst upp á kostnað ríkisins á undanförnum árum og áratugum þótt tiltölulega stutt sé síðan kennsla í tveimur þeim síðarnefndu var færð upp á háskólastig. Aðrir háskólar sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir, svo sem Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaháskólinn á Bifröst, hafa þurft að kosta uppbyggingu sína sjálfir að langmestu leyti og því hefur verið litið til þess að sértekjur þeirra nýtist m.a. til þeirrar uppbyggingar. Þá hafa þessir skólar nýtt umframféð til að standa undir rannsóknastarfsemi þar sem framlag ríkissjóðs til hennar hefur ekki verið umfangsmikið.

Samkeppni á háskólastiginu er jafnnauðsynleg og á öðrum sviðum samfélagsins. Óhætt er að segja að gæði og þjónusta á háskólastiginu hafi aukist hér á landi með vaxandi samkeppni. Á það sérstaklega við um rótgrónar stofnanir háskólastigsins. Þær hafa gott af því aðhaldi sem slík samkeppni veitir.

Allir ríkisháskólarnir starfa samkvæmt sömu reglu um gjaldtöku af nemendum. Reglurnar kveða á um hámark skráningargjalda. Sjálfseignarstofnanirnar setja sér hins vegar reglur um gjaldtöku af nemendum og umframtekjur þeirra af gjaldtöku sem renna ekki til almenns rekstrar nýtast þeim í nauðsynlegri uppbyggingu sem um leið eru til þess fallnar að jafna samkeppnisstöðu þeirra gagnvart ríkisháskólunum.