Samkeppnisstaða háskóla

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 16:03:24 (2096)

2002-12-04 16:03:24# 128. lþ. 46.11 fundur 319. mál: #A samkeppnisstaða háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég tel hins vegar ekki rétt að blanda saman kennslufé og rannsóknafé. Kennslusamningurinn og reiknilíkan hefur reynst vel eins og ráðherra nefndi, en ég vil geta þess að launastika er of lág, þ.e. miðað er við miklu lægri laun en raunin er. Þetta þyrfti að lagfæra. Það þarf líka að veita meira fé í háskólastigið vegna fjölgunar bæði háskóla og nemenda.

Sjálfseignarstofnanir hafa rétt til að taka skólagjöld meðan Háskóli Íslands hefur það ekki. Það er mikið matsatriði hvort Háskóli Íslands eigi að hafa það. Það þekkist hins vegar ekki að menn séu settir alveg með sambærilegar greiðslur frá opinberum aðilum með þessum hætti.

Ég treysti hins vegar, herra forseti, ráðherra vel til að taka á þessum málum því samkeppni er af hinu góða og er mjög þörf á háskólastigi eins og annars staðar. Hún þarf þó að vera á jafnréttisgrundvelli og þar eru atriði sem þurfa nánari skoðunar við til að allir sætti sig við þann eðlilega ramma sem ríkisvaldið setur þessum skólum.