Samkeppnisstaða háskóla

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 16:05:56 (2098)

2002-12-04 16:05:56# 128. lþ. 46.11 fundur 319. mál: #A samkeppnisstaða háskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en vil vekja athygli á því að fyrirspurnin snýst um jafna samkeppnisstöðu háskóla í kennsluþættinum. Ég spurði eingöngu um kennsluþáttinn og hélt rannsóknaþættinum þar fyrir utan því hann væri efni í aðra umræðu, sérstaka umræðu.

Stjórnvöld verða að gera upp við sig hvernig þau vilja hátta rekstrinum á háskólastiginu. Heyri ég á hæstv. ráðherra að hann sé að láta vinna það í ráðuneytinu. Ef áfram heldur sem horfir í þeim rekstri eins og honum er háttað og ég lýsti í fyrri ræðu minni munu ríkisháskólarnir verða annars flokks skólar. Sjálfseignarstofnanirnar hafa sama fjármagn frá ríkinu á hvern nemanda plús skólagjöldin og geta því keypt bestu kennarana en ríkisskólarnir geta ekki keppt við þá. Auðvitað mun þetta leiða til mismununar milli nemenda, þ.e. nemendurnir sem eiga efnameiri foreldra geta leyft sér að fara í einkaskólana.

Það kemur mjög skýrt fram í grein háskólarektors í Morgunblaðinu í gær að til þess að koma í veg fyrir að ríkisskólarnir koðni niður þarf annað tveggja, að hækka fjárveitingar til ríkisskólanna sem nemur skólagjöldunum hjá einkaskólunum eða þá að heimila töku skólagjalda sem ég er alls ekki að mæla með.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera í stöðunni? Mun hann beita sér fyrir réttlátari samkeppni? Hún er ekki til staðar í dag, það er alveg ljóst á því sem kom fram í ræðu minni á undan. Þetta er mjög alvarleg staða fyrir ríkisreknu háskólana og þeir munu koðna niður verði þetta ástand viðvarandi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera í málinu? Mun hann láta þetta viðgangast til lengdar?