Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:41:06 (2113)

2002-12-04 18:41:06# 128. lþ. 46.17 fundur 378. mál: #A rafmagnseftirlit# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 431 hefur hv. þm. Þuríður Backman beint til mín svohljóðandi fyrirspurn, með leyfi forseta:

,,Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í ljósi þess hve bágborið rafmagnseftirlitið er í landinu?``

Hæstv. forseti. Ekki er hægt að taka undir það að rafmagnseftirlit sé bágborið hér á landi eins og fyrirspyrjandi fullyrðir í fyrirspurn sinni. Breytingar voru gerðar á skipulagi rafmagnseftirlitsmála hér á landi á árinu 1997. Með nýjum lögum um rafmagnsöryggi var aukin ábyrgð lögð á herðar fagmanna og fyrirtækja sem annast raflagnir og rekstur á rafveitum, m.a. með kröfu um skilgreint gæðakerfi. Löggildingarstofa tók við hlutverki Rafmagnseftirlits ríkisins og skilið var á milli stjórnsýslu og framkvæmdar við rafmagnseftirlit.

Á þessum tíma hefur verið byggt upp öflugt og skilvirkt fyrirkomulag í þeim tilgangi að auka rafmagnsöryggi. Umfram allt er samræmi milli hlutverka og ábyrgðar þeirra sem starfa við rafmagns- og neysluveitur. Teknar hafa verið upp úrtaksskoðanir í stað alskoðana með það að markmiði að ná hliðstæðum árangri en með minni tilkostnaði. Löggiltum rafverktökum og starfsmönnum rafveitna er treyst til að vinna verk sín af kostgæfni án óþarfa afskipta ríkisins. Með þessum breytingum var horfið frá eldra fyrirkomulagi sem fólst í því að eftirlitsmenn á vegum hins opinbera fóru yfir allar nýjar raflagnir í heimahúsum eða fyrirtækjum og skoðuðu ástand rafmagnsmála í eldri húsum. Þetta fyrirkomulag var dýrt í rekstri og slævði óneitanlega ábyrgðarkennd fagmanna.

Þremur árum eftir að Löggildingarstofa tók við þessum málaflokki var sérfræðinganefnd iðn.- og viðskrh. falið að gera úttekt á árangri af breyttu fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála. Nefndin skilaði skýrslu sinni vorið 1999. Helstu niðurstöður voru þær að annars vegar væri ástand rafmagnsöryggismála og rafmagnseftirlits gott og hins vegar að ný aðferða- og hugmyndafræði, með notkun úrtaksskoðana innri öryggisstjórnunar og faggildra skoðunarstofa myndaði traustan grunn fyrir framtíðarskipan þessa málaflokks. Breytingar á fyrirkomulagi rafmagnseftirlitsins hafa ekki komið niður á rafmagnsöryggi nema síður sé. Skýrslur um tjón og slys af völdum rafmagns gefa ekkert slíkt til kynna.

Ástæða er til að vekja athygli á því að um helmingur allra bruna af völdum rafmagns stafar af rangri notkun og aðgæsluleysi. Af þeirri ástæðu hefur rafmagnsöryggisdeild Löggildingarstofu lagt aukna áherslu á að miðla upplýsingum til almennings um þá hættu sem tengist rafmagnsnotkun og hvernig hægt er að draga úr slysum. Með því að breyta fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála og flytja áhersluna frá eftirliti yfir í eiginlegt öryggi minnkaði kostnaður vegna þessa málaflokks. Engu að síður er verulegum fjárhæðum varið til rafmagnseftirlits með þeim hætti sem fyrirspyrjandi virðist hafa í huga. Að jafnaði er árlega varið á fimmta tug milljóna í úrtaksskoðanir á neysluveitum og rafföngum um allt land.

Þá verður einnig að hafa í huga að rafveitur verja árlega nokkrum milljónum í skoðanir á öryggisstjórnunarkerfum sínum ásamt skoðunum á raforkuvirkjum og nota enn fremur til þess eigin skoðunarmenn sem og faggiltar skoðunarstofur. Gæðakerfi löggiltra rafverktaka hafa stuðlað að stórbættum vinnubrögðum og dregið úr þörfum fyrir úrtaksskoðanir á nýjum húsum í þeim mæli sem verið hefur. Af þessum sökum er unnt að auka fjölda úrtaksskoðana á eldri húsum. Jafnframt hefur Löggildingarstofa látið fara fram sérstaka útttekt á ástandi rafmagnsmála í tilteknum atvinnugreinum og ýmsum gerðum húsa þar sem grunur leikur á að úrbóta sé þörf. Að lokinni úttekt hafa allir hlutaðeigandi aðilar í viðkomandi atvinnugrein fengið upplýsingar um ástand raflagna og hvað ber að laga.

Á undanförnum árum hefur oft verið kvartað undan því sem kallað er vaxandi eftirlit iðnaðar hins opinbera. Það hlýtur því að vera fagnaðarefni þegar tekst að draga úr kostnaði atvinnulífisins vegna rafmagnseftirlits um leið og tekin eru upp skynsamleg og nútímaleg vinnubrögð til að auka rafmagnsöryggi í landinu. Fyrirspyrjandi gefur sér að rafmagnseftirlitið sé bágborið hér á landi. Ljóst er að enginn fótur er fyrir þessari ályktun og jafnljóst að ekki er fyrirhugað að gera tillögur að lagabreytingum.