Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 18:46:23 (2114)

2002-12-04 18:46:23# 128. lþ. 46.17 fundur 378. mál: #A rafmagnseftirlit# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[18:46]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem telja að þær grundvallarbreytingar sem gerðar voru á rafmagnseftirliti í landinu árið 1997 hafi verið vanhugsaðar og síður en svo nokkurt heillaspor eins og skilja má á hæstv. ráðherra. Á þeim tíma var horfið frá því fyrirkomulagi að allar íbúðir, öll fyrirtæki sættu skoðun en þess í stað tekin upp svokölluð úrtaksskoðun, aðeins hluti íbúða, hluti húsa, hluti fyrirtækja var skoðaður. Þetta hafði það í för með sér að rafmagnseftirlitið, hið eiginlega rafmagnseftirlit sem sett var í hendur svokallaðra skoðunarstofa var flutt af landsbyggðinni til Reykjavíkur því að þær 2--3 skoðunarstofur sem hafa sinnt þessu hlutverki eru allar á höfuðborgarsvæðinu. Og það er rangt sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra að almenn ánægja sé með þetta fyrirkomulag. Vissulega er það umdeilt en það er hlutfallslega miklu dýrara og hefur sætt mikilli gagnrýni frá hendi þeirra sem sinna þeim verkefnum og gerst þekkja til þessara mála.