Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:33:51 (2118)

2002-12-05 10:33:51# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 1. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var frekar stutt ræða hv. formanns fjárln. um fjáraukalögin en það er fyllsta ástæða, virðulegur forseti, til að spyrja hv. formann fjárln. um leið og honum er þakkað fyrir ágætt samstarf, það sem var, hvort hann telji að farið sé að lögum við framkvæmd þessa máls, fjáraukalagagerðarinnar. Ég hef lista yfir öll ráðuneyti íslensku ríkisstjórnarinnar, ég hef flokkað málin niður og sett já þar sem er raunverulegt eðlilegt tilefni, og ég hef sett nei þar sem fyrirsjáanleg tilefni voru við síðustu fjárlagagerð. Það er þannig, virðulegur forseti, að neiin eru miklu fleiri. Síðan eru nokkur atriði tekin fram sem hafa komið óvænt upp á, svo sem minningasafn um Halldór Laxness, greiðslur vegna grænmetisframleiðslu, Umferðarstofa og varasjóður húsnæðismála. Þetta eru atriði sem hafa kannski verið ófyrirsjáanleg en voru þó í umræðu. Það sem ég er að reyna að varpa ljósi á er að í rauninni er verið að brjóta fjárreiðulög, og ég spyr hv. formann fjárln. --- góðan daginn, Jón hæstv. heilbrrh. --- hvort hann telji að farið sé að lögum.