Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:39:09 (2122)

2002-12-05 10:39:09# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hún var vandræðaleg, ræða hv. formanns fjárln., Ólafs Arnar Haraldssonar, enda kannski ástæða til. Ég spyr formann fjárln. hvort hann telji að sú upphæð sem sótt er um nú undir lið forsrn. til einkavæðingarnefndar, viðbót upp á 220 millj. kr., fjáraukalagabeiðni nú í árslok til einkavæðingarnefndar og einkavæðingar verkefna án þess að viðhlítandi skýringar berist um hvernig ætlunin er að ráðstafa þessari upphæð á þessu ári, sé eðlileg. Við skulum rifja upp lög um fjárreiður ríkisins sem kveða á um að í fjáraukalögum skuli einungis koma beiðnir og til framkvæmda afar brýn og ófyrirsjáanleg verkefni sem verður að bregðast við mjög hart. Annars eiga fjárveitingarnar að koma annaðhvort á fjárlögum þess árs þegar þau voru gerð eða á fjárlögum næsta árs.

Hvaða upplýsingar hefur hv. formaður um að þetta sé svo brýnt að taka verði 220 millj. kr. aukafjárveitingu í árslok til einkavæðingarnefndar vegna verkefna hennar í sölu hlutabréfa ríkisins?

Hvernig er þessi kostnaður til kominn, sundurliðað, og hver fær þennan pening?

Er þetta afar brýnn og ófyrirsjáanlegur kostnaður, nú þessa dagana?