Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 10:53:43 (2132)

2002-12-05 10:53:43# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að halda sig við framhaldsskólana. Það er afar athyglisvert að nú á vikutíma virðist ráðuneyti menntamála hafa fundið tæplega 500 nýja nemendur í framhaldsskólunum. Það væri fróðlegt að heyra frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni hvaða aðferðum var beitt við það. Fyrir viku vorum við í 2. umr. um fjáraukalög og þá var bætt við 80 nemendum, sem þá voru fundnir. Á þeirri viku sem liðin er hefur ráðuneytið fundið, eins og ég sagði áðan, tæplega 500 nemendur. Það er skýringin sem við fáum á þessum 220 millj. sem nú er verið að bæta við til framhaldsskólanna. Það er ekki gengið í að leiðrétta rekstrargrunninn heldur hafa þeir fundið tæplega 500 nemendur á þessari viku. Herra forseti, það er óhjákvæmilegt að fá upplýsingar frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni: Hvaða aðferð var beitt við það að finna þessa 500 nemendur sem ekki fundust fyrir viku?