Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 11:54:20 (2137)

2002-12-05 11:54:20# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[11:54]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því að hér talaði formaður þingflokks framsóknarmanna. Hér talaði einn af máttarstólpum þingflokks framsóknarmanna, hér talaði maður sem er að fara í framboð fyrir Framsfl., hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Hér talaði þingmaður og maður sem er að fara í framboð.

Ég vil vekja athygli á því sem hv. þm. minntist á með sölu Steinullarverksmiðjunnar og þau skilyrði sem þar fylgdu. Þar voru bara Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn á móti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson greiddi atkvæði með sölu Steinullarverksmiðjunnar illu heilli og þeim skilyrðum sem þar voru sett varðandi ráðstöfun fjárins. Ég er reyndar sammála honum í að það á ekki að skuldbinda slíkar fjárveitingar með þessu móti og það kom fram í máli mínu. En hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson greiddi þá, því að þá var enn langt til kosninga, atkvæði með þessu.

Ég hef reyndar spurt hæstv. iðnrh., ráðherra hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að því hvernig þessu fjármagni hafi verið ráðstafað. Ég hef ekki fengið fullnægjandi svör. Það virðist vera á huldu. En ég er sammála hv. þm. í því að þarna var vitlaust að verki staðið en þingmaðurinn greiddi samt atkvæði með því í vor.

Sama er að segja um eignarhaldsfélögin. Sá málaflokkur heyrir einnig undir ráðherra Framsfl., hæstv. iðnrh. Ég gerði athugasemdir í nál. við 1. umr. bæði fjárlaga og fjáraukalaga um hvernig verið væri að fara með eignarhaldsfélögin og ráðstöfun á fjármagni Byggðastofnunar og greiddi atkvæði gegn því. En hv. þm. er núna fyrst að koma og greina frá þessari skoðun sinni hér, sem ég er að vísu sammála.

Herra forseti. Er þetta bara vegna þess að verið er að fara í kosningar? Hvers vegna kom þessi skoðun ekki fram á síðasta vetri þegar þessi mál voru virkilega til umræðu?