Fjáraukalög 2002

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 12:54:47 (2156)

2002-12-05 12:54:47# 128. lþ. 47.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[12:54]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað eðlilegt að hv. þingmaður komist ekki yfir í fyrra andsvari sínu að svara öllum þeim spurningum sem ég lagði hér fram. En ég vek athygli á nákvæmlega því sem hv. þm. var að tala um, við höfum fengið gesti frá ráðuneytunum í heimsókn til okkar en það dugir ekki alltaf til. Af því að ég hef gert hér að umtalsefni reiknilíkan framhaldsskólanna vil ég segja að þegar fulltrúar úr menntmrn. voru í heimsókn hjá nefndinni spurði ég m.a. út í reiknilíkanið og óskaði eftir því að við fengjum það í hendur. Því var tekið afskaplega ljúfmannlega af fulltrúum ráðuneytisins en síðan, því miður, hefur reiknilíkanið ekki borist og þess vegna skortir okkur m.a. þær upplýsingar sem ég ræddi um áðan.

Eitt er það þó, herra forseti, sem ég vil spyrja hv. þingmann um til viðbótar og það er eiginlega grundvallaratriði varðandi það hvernig við göngum frá fjáraukalögum. Telur hann það viðunandi að við höfum ekki stöðu stofnana nú um stundir né áætlun um stöðu þessara stofnana um áramót? Við sjáum ekki hvernig þær standa, og ég á í raun og veru við þetta, bæði varðandi fjáraukalögin og fjárlögin. Þetta er auðvitað óviðunandi og þýðir að nefndin getur ekki sinnt því eftirlitshlutverki sem henni er ætlað. Eins og vinnubrögðin eru í nefndinni höfum við enga möguleika til að að sinna þessu eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu. Því miður virðist framkvæmdarvaldið þar að auki hafa þau tök á meiri hluta fjárln. sem framkvæmdarvaldið virðist óska hverju sinni.