Viðvera ráðherra við lokaumræðu fjárlaga

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 13:36:52 (2160)

2002-12-05 13:36:52# 128. lþ. 47.91 fundur 294#B viðvera ráðherra við lokaumræðu fjárlaga# (um fundarstjórn), GE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Að hefðbundnum sið við fjárlagaumræðu set ég fram þá kröfu að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu hér allir viðstaddir, a.m.k. meðan umræða fer fram af hálfu talsmanns meiri hlutans og aðaltalsmanna minni hlutanna, og geti tekið við þeim spurningum sem settar eru fram og veitt svör við þeim. Það er gersamlega ólíðandi að ár eftir ár skuli ráðherrabekkurinn vera auður nánast að segja, aðeins tveir ráðherrar viðstaddir aðalumræðu um fjárlög, þ.e. 3. umr. Þetta hefur endurtekið sig æ ofan í æ, virðulegur forseti. Ég óska eftir því að gerð verði atlaga að því að fá hæstv. ráðherra til að vera viðstadda og ekki hefja umræðuna í raun fyrr en hæstv. ráðherrar eru staddir í salnum og hlýða á það sem við höfum fram að færa. Við höfum verið að ásaka ríkisstjórn um að brjóta lög, að hún fari ekki að fjárreiðulögum og fyllsta ástæða er til að þessir hæstv. ráðherrar sem ekki eru viðstaddir komi hér í sal og taki við þeirri gagnrýni sem við höfum fram að færa. Ég tel að hún sé nægilega rökstudd með því að vísa til álita Ríkisendurskoðunar ár eftir ár sl. fjögur ár.