Viðvera ráðherra við lokaumræðu fjárlaga

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 13:38:44 (2162)

2002-12-05 13:38:44# 128. lþ. 47.91 fundur 294#B viðvera ráðherra við lokaumræðu fjárlaga# (um fundarstjórn), JB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég tek undir beiðni og athugasemdir hv. þm. Gísla S. Einarssonar og fagna undirtektum forseta um að kalla ráðherrana til. Í morgun hafa farið fram umræður um fjáraukalög án þess að ráðherrabekkurinn hafi verið skipaður. Hér hafa komið fram spurningar, fyrirspurnir og óskir um skýringar á ákveðnum liðum sem heyra undir fagráðherrana. Formaður þingflokks framsóknarmanna hefur beint mjög eindregnum athugasemdum og fyrirspurnum til hæstv. iðnrh. sem var ekki viðstödd. Ég tel því afar mikilvægt að hæstv. ráðherrar séu hér við lokaumræðu fjárlaga.

Vonandi er þessi lokaumræða fjárlaga, 3. umr., síðasta umræða sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir. Ég vona að næsta ríkisstjórn verði ekki eins skipuð og sú sem er að leggja hér lokahönd á fjárlög sín. En engu að síður væri þó rétt og skylt af hæstv. ríkisstjórn að hafa þann myndugleika og þann trúnað við Alþingi að vera viðstödd lokaafgreiðslu fjárlaga sinna sem vonandi verður ekki endurtekning á.