Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:14:26 (2171)

2002-12-05 14:14:26# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. vilji hlýða á mál mitt og vilji að það sé sem lengst og ylji hér mönnum á allan hátt. Ég verð enn einu sinni að valda honum vonbrigðum. Ég kem hér fyrst og fremst að aðalatriðum þess máls og þeirrar afgreiðslu sem yfir stendur. Eins og ég sagði áðan hef ég þegar gert ítarlega grein fyrir því í ítarlegri ræðu við 2. umr., hverjar horfur eru í þjóðarbúskapnum. Það væri móðgun við hv. þm. að fara að lesa það yfir. Það hafa aðeins orðið örlitlar breytingar á veigamestu þjóðhagsstærðum, mest er það um hálft prósent.

Ég hef getið hér um lítils háttar breytingu á atvinnuleysistölum. Spáin er núna sú að atvinnuleysið verði 2,75% á næsta ári, sem er örlítil hækkun. Ég tel ekki ástæðu til að þreyta þingheim á löngum þulum um þetta.

Ég gat í framsögu minni um helstu stærðirnar sem varða framhaldsskólann og aldraða. Aðrar skýringar liggja mjög glöggt fyrir hér í þingskjölum. Hvað varðar framhaldsskólana þá tel ég að þetta sé hin besta ráðstöfun og efling við framhaldsskólana að láta þá hafa 70 millj. kr. núna. Ég tel að ráðuneytið hafi fyllilega gert okkur grein fyrir því hvaðan þessir nemendur eru komnir og hvert þeir muni fara.