Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:23:04 (2176)

2002-12-05 14:23:04# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson átti sig á því hverju hann var að svara. Þannig er að í nál. frá meiri hluta iðnn. með samþykkt að byggðaáætlun eða stefnu í byggðamálum fyrir árið 2002 stendur á bls. 4:

,,Nefndin telur jafnframt mikilvægt að styrkja varanlega rekstur atvinnuþróunarfélaganna ásamt eignarhaldsfélögum og atvinnuþróunarsjóðum.``

Hvað er það sem gerist? Eignarhaldsfélögin eru lögð niður þvert ofan í samþykkt Alþingis. Og hvað er gert við atvinnuþróunarfélögin? Jú, það er ekki orðið við hækkun. Má ég, virðulegi forseti, vitna til orða hæstv. iðnrh. frá 5. nóv. sl.:

,,Í sambandi við atvinnuþróunarfélögin þá hafa þau fengið fjármagn í gegnum Byggðastofnun. Það er rétt hjá hv. þm. að þau framlög hafa ekki hækkað í samræmi við verðlagshækkanir þó að það sé kannski ekki rétt að þau hafi lækkað, en engu að síður er þetta svona. Að hluta til er þetta vegna þess að í fjmrn. hefur ekki verið tekið tillit til þess, ekki verið nægilega góður skilningur á því að þarna hafi þurft að færa upphæðir í samræmi við verðlag. Ég tel að það hafi náðst ákveðið samkomulag milli ráðuneytanna um að tekið verði á þessu að þetta verði leiðrétt. Ég tel að þarna sé um 20 millj. að ræða sem í raun þyrftu að bætast við til að þetta verði viðunandi.``

Þetta eru orð hæstv. iðnrh., með leyfi forseta.

Hér, bæði í nál. meiri hlutans með stefnu í byggðamálum og í orðum hæstv. ráðherra, er þess einmitt krafist og ákveðið að eignarhaldsfélögin skuli standa og að fjármagnið skuli aukið til atvinnuþróunarfélaganna. Hvað gerist? Það gerist nákvæmlega þveröfugt. Og það upplýstist hér hjá formanni þingflokks framsóknarmanna að það væri gegn vilja þingflokksins.