Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:28:00 (2180)

2002-12-05 14:28:00# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta fjárln.

Frv. sem hér er til umræðu ber með sér að ríkisstjórnin er orðin þreytt. Hún hefur enga stefnu, engin markmið og engan metnað. Henni hefur ekki tekist að greiða niður skuldir í samræmi við þann tekjuauka sem ríkissjóður hefur fengið á undanförnum árum, heldur hefur stór hluti hans verið notaður til að standa undir útgjöldum umfram forsendur fjárlaga sem er afleiðing lélegrar fjármálastjórnar undanfarin ár. Það er dapurlegt til þess að vita að þrátt fyrir allt góðærið undanfarin ár er ekki hægt að bæta kjör aldraðra og öryrkja án þess að hækka skatta og valda þar með hækkun á neysluvísitölu sem aftur hækkar skuldir heimilanna. Þetta er ekki stórmannlegt.

Eins og fram kom í áliti 1. minni hluta við 2. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 er rekstrargrundvöllur stofnana og embætta víða brostinn. Nú við 3. umr. verður ekki séð að tekið hafi verið á þessum málum eins og nánar verður vikið að síðar í þessu nál.

Fjmrn. hefur nú endurskoðað þjóðhagsspána sem birt var í október. Ljóst er að efnahagsforsendur ráðuneytisins hafa breyst í veigamiklum atriðum frá því að frv. var lagt fram. Nú er talið að samneyslan aukist um 2,25% en í frv. var reiknað með 1% aukningu. Þá er reiknað með að atvinnuleysi muni heldur aukast á næsta ári og verða 2,75% í stað 2,5%.

Nýverið birti Seðlabankinn sína fyrstu þjóðhagsspá sem byggðist í meginatriðum á sömu forsendum og spá fjmrn. Seðlabankinn hefur ekki birt endurskoðaða spá þannig að ekki liggur fyrir álit annarra hlutlausra aðila á breyttri þjóðhagsspá fjmrn. Það er mjög alvarlegt mál, að mati 1. minni hluta, að Alþingi hafi ekki aðgang að óháðum aðilum til að meta efnahagsforsendur frv.

[14:30]

Herra forseti. Nauðsynlegt er í þessu samhengi að vekja athygli á bréfi sem efh.- og viðskn. sendi fjárln. af svipuðu tilefni. En í bréfi efh.- og viðskn. segir, með leyfi forseta:

,,Hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur komið til umræðu nauðsyn þess að við nefndasvið Alþingis sé til staðar þekking á hagfræðilegum málefnum. Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á verkaskiptingu opinberra aðila varðandi umfjöllun um hagfræðileg viðfangsefni telur nefndin brýnt að fjárlaganefnd taki þetta til skoðunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003.``

Herra forseti. Því miður fékkst meiri hluti fjárln. ekki til þess að fjalla efnislega um þetta bréf og því var það einungis lagt fyrir en síðan engin afgreiðsla á því. Hins vegar er ekki útilokað að meiri hluti fjárln. sjái að sér og velti þessu máli upp og að hugsanlega verði hægt að nálgast það með því að fara yfir fjárveitingar til Alþingis, en það er augljóst að meiri hluti fjárln. hefur ekki áhuga á því við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003 að á þessu máli sé tekið.

Í meðfylgjandi áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. eru gerðar alvarlegar athugasemdir við verðlagsforsendur frv. og bent á að ekki er tekið inn í forsendurnar upplýsingar um hækkanir sem nú þegar liggja fyrir. Er þar m.a. bent á áform tryggingafélaga um hækkun iðgjalda og áhrif á boðuðum hækkunum sveitarfélaga t.d. á leikskólagjöldum.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 gerði ráð fyrir að útgjöld ríkisins næmu 253,3 milljörðum kr. Við 2. umr. voru útgjöldin hækkuð um 4,3 milljarða og nú við 3. umr. eru útgjöldin enn aukin um 2,5 milljarða kr. Lögð er til hækkun lífeyrisútgjalda og framlaga til hjúkrunarheimila um tæplega 1,7 milljarða kr. samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnar og eldri borgara.

Loks hefur ríkisstjórnin séð sóma sinn í að bæta kjör þessa þjóðfélagshóps, en líta verður á þessar úrbætur eingöngu sem fyrsta skref í þá átt að bæta þá skerðingu sem sá hópur hefur mátt þola á undanförnum árum.

Herra forseti. Ekki er óeðlilegt þegar rætt er um útgjöld sem aukist hafa hér á milli umræðna að velta örlítið fyrir sér hvernig útgjöld ríkissjóðs hafa þróast á undanförnum árum. Við blasir þegar tölur eru skoðaðar að frá árinu 1998 til þess sem væntanlega verður í fjárlögum fyrir árið 2003 er útgjaldaaukning þegar frá eru taldar lífeyrisskuldbindingar um 50%. Á sama tíma hefur neysluverðsvísitala hækkað um 24%. Þarna er rúmlega 100% munur á.

Augljóst er að ef útgjöld ríkissjóðs hefðu hækkað eins og neysluverðsvísitala, þá ættum við eftir 50 milljarða. Það skeikar 50 milljörðum ef bornar eru saman tölur frá 1998 og þróun neysluverðsvísitölu til þeirra spáa sem fyrir liggja um árið 2003.

Herra forseti. Ég held áfram með nál. 1. minni hluta.

Hins vegar bendir 1. minni hluti á að nú við lokaafgreiðslu þessa frumvarps er ljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka á vandamálum í menntakerfinu. Áður hefur verið bent á þann mikla vanda sem framhaldsskólar eiga við að etja og nú bætast við skólar á háskólastigi. Sérstaklega má benda á vanda sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir. Í minnisblaði sem háskólarektor sendi fjárlaganefnd bendir hann á að menntamálaráðherra hafi verið gerð ítarleg grein fyrir alvarlegri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands án þess að viðunandi lausn hafi fengist á henni. Þessa fjárhagsstöðu má m.a. rekja til þess að nemendum hefur fjölgað meira á undanförnum árum en gert var ráð fyrir og að sú launastika sem menntamálaráðuneytið notar til þess að ákveða nemendaframlög hafa ekki hækkað til samræmis við launahækkanir sem kjaranefnd hefur úrskurðað prófessorum og kjarasamninga sem fjármálaráðuneytið hefur gert við félög háskólastarfsmanna. Þetta gerist þrátt fyrir skýlaust ákvæði í samningum við menntamálaráðuneytið um að bæta skuli slíkar hækkanir. Alls er talið að fjárskortur háskólans nemi um 900 millj. kr.

Nauðsynlegt er, herra forseti, að vekja sérstaklega athygli á því að sú breyting sem hér um ræðir, þ.e. annars vegar kjaranefndarúrskurður og hins vegar kjarsamningur sem fjmrn. gerir, er af þeirri gerðinni að ekki er við stjórnendur viðkomandi stofnunar að sakast, heldur er hér í rauninni gerður hlutur sem þeir standa frammi fyrir og verða að bregðast við. Og þannig er það auðvitað mjög víða í ríkiskerfinu að ekki er brugðist við þegar gerðir eru t.d. kjarasamningar þó svo að þeir séu gerðir miðlægt, af miðstjórninni, sem í fjmrn. situr.

En, herra forseti, það eru miklu fleiri stofnanir og væri hægt að hafa um þær langt mál. Við getum nefnt af handahófi t.d. Þjóðminjasafnið sem til fjölda ára hefur búið við óviðunandi aðstæður. Við getum nefnt stofnanir í B-hluta fjárlaga eins og Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitina og kallar það þá á upprifjun á því að þegar á haustdögum var fjallað um málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar var okkur tjáð að nefnd væri að störfum sem mundi ljúka verki sínu innan skamms tíma og örugglega áður en kæmi til afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003.

Því miður, herra forseti, virðist saga þess starfshóps eða þeirrar nefndar vera söm og svo margra annarra að ekki er störfum lokið og við höfum ekki séð neinn afrakstur af þeirri vinnu. Og því mun staða Sinfóníuhljómsveitarinnar væntanlega því miður halda áfram á þeirri braut sem hefur verið nú um nokkurt skeið, eigið fé allt uppurið og eingöngu safnað skuldum. Því miður vegna þeirrar stofnunar sem ég nefndi einnig, Ríkisútvarpsins, virðist sú stofnun líka vera á svipaðri leið og ekki virðist vera brugðist við á nokkurn hátt.

Á þessu ári var ákveðið að hækka afnotagjöld Ríkisútvarpsins frá og með 1. jan. 2002. Það var ákveðið í samkomulagi við verkalýðshreyfinguna að draga það til baka og ákveðin var ein greiðsla til stofnunarinnar. Nú liggur ekkert fyrir um það hvað tekur við á næsta ári. Ekki hafa borist neinar fréttir af því hvort hækka eigi afnotagjöldin og ef á að hækka þau, hversu mikið á þá að hækka afnotagjöldin? Á þá að taka inn í þá hækkun sem tekin var til baka 1. janúar sl.? Eða hvernig er yfir höfuð verið að velta fyrir sér að bregðast við vanda þeirrar stofnunar?

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2003 gerði ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs næmu 264 milljörðum kr. Nú við 3. umr. eru þær hækkaðar um 7,6 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila skili um 3 milljörðum kr. hærri tekjum vegna endurmats ársins 2002 í kjölfar álagningar sem birt var í október. Má í þessu sambandi vekja athygli á að þessi skattur var einnig hækkaður um 4 milljarða kr. í fjáraukalögum fyrir árið 2002. Þetta þýðir að tekjuskattur lögaðila á árinu 2002 var vanáætlaður um 67% í fjárlögum þess árs.

Herra forseti. Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á þessu því þetta er enn eitt dæmið um hversu slaklega er unnið að áætlanagerð, því miður, og bætist enn í hóp þeirra mörgu atriða sem komið hafa fram um að því miður er ekki nægilega vel staðið að verki, hvorki við vinnslu fjárlaga né fjáraukalaga.

Þá er gert ráð fyrir að auknir skattar á áfengi og tóbak skili um 1,1 milljarði kr., en þessi hækkun hefur bein áhrif á neysluvísitölu og ein afleiðing þess er að skuldir heimilanna hækka um 2 milljarða kr. Þetta sýnir enn betur nauðsyn þess að endurskoða fyrirkomulag á verðtryggingu lána.

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa breytingar á tekjuhlið frumvarpsins verið gagnrýndar af 1. minni hluta fjárlaganefndar. Oftar en ekki hefur tekjuhliðin verið notuð til að ná fram æskilegum afgangi og þar af leiðandi ekki verið trúverðug. Ákvörðun um tekjur ríkissjóðs byggist á ýmsum forsendum fyrir þróun efnahagslífs á næsta ári. Eins og fram kemur í meðfylgjandi áliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru þær forsendur sem tekjuhliðin byggist á afar hæpnar, svo ekki sé meira sagt.

Nú við 3. umr. leggur Samfylkingin fram breytingartillögur sem miða m.a. að því að bæta stöðu stofnana í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Þá eru lagðar til ýmsar breytingar sem miða að því að bæta stöðu þeirra sem minna mega sín í þessu velferðarþjóðfélagi. Þá er einnig gerð krafa um hagræðingu hjá ráðuneytum og lækkun kostnaðar. Alls hækka tillögurnar útgjöld um 2,7 milljarða kr. en á móti koma tillögur um hækkun tekna um 800 millj. kr. og hagræðingar- og sparnaðarkröfur upp á 2,4 milljarða kr., eða samtals 3,2 milljarða kr. Nánar verður gerð grein fyrir þessum tillögum í ræðu hér á eftir af hv. þm. Gísla S. Einarssyni. Með þessum tillögum er reynt að bæta það sem brýnast er í þessu frumvarpi en það er langt frá því að með samþykkt þeirra væru öll vandamál úr sögunni. Ljóst er, herra forseti, að fastatök á ríkisfjármálunum bíða nýrrar ríkisstjórnar.

Með þessu frumvarpi er ekki leystur vandi margra ríkisstofnana sem standa höllum fæti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2001 kemur fram að 101 fjárlagaliður af 511 fór fram úr þeim 4% mörkum sem ákveðin voru í reglugerð um framkvæmd fjárlaga og í sumum tilfellum var stofnað til útgjalda langt umfram þau mörk. Það er óraunhæft að flytja svo mikinn halla á milli ára nema ljóst sé að stofnanir geti hagrætt svo í rekstri að þær ráði við slíka skerðingu. Að sama skapi þarf þá að endurskoða rekstrargrunn þeirra stofnana sem safnað hafa upp fjárheimildum. Því er ljóst að endurskoða þarf reglur sem settar hafa verið um flutning fjárheimilda milli ára þannig að takmörk verði sett á heimilaðan flutning.

Alþingi samþykkir ár hvert fjölda lagabreytinga er varða stofnanir ríkisins. Eftirlitið með framkvæmd laganna er mikilvægur þáttur í allri stjórn á útgjöldum ríkisins til einstakra stofnana og verkefna. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga urðu harðar deilur á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins um upplýsingaskyldu hins síðarnefnda. Var kveikjan að þessum deilum beiðni um 300 millj. kr. aukafjárveitingu til einkavæðingarnefndar ríkisins. Í vinnu fjárlaganefndar nú í haust hefur 1. minni hluti lagt fram fjölmargar beiðnir um upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu sem ekki hafa borist. Dæmi um þetta er m.a. beiðni um upplýsingar varðandi reiknilíkan framhaldsskóla og beiðni um frekari skýringu á tillögu um 220 millj. kr. aukafjárveitingu til einkavæðingarnefndar. Hvorugri beiðninni hefur verið svarað. Þetta er að mati 1. minni hluta mjög alvarlegt mál.

Herra forseti. Frá því þetta nál. var ritað hefur okkur borist örlítil skýring ef svo má orða frá forsrn. varðandi beiðnina um 220 millj. kr. til einkavæðingarnefndar. Hins vegar er alveg augljóst mál við lestur þess svars að ekki er hægt að telja það til skýringa á þessum 220 millj. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Vegna þess að hv. þm. Sverrir Hermannsson óskar eftir að fá að heyra þetta stutta svar, þá held ég að rétt sé að verða við þeirri beiðni því það tekur ekki langa stund að lesa það. En það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Vísað er til fyrirspurnar fjárln. varðandi sundurliðun á fjárlagalið 01-190-115, útboðs- og einkavæðingarverkefni. Farið er fram á 220 millj. kr. aukafjárveitingu vegna þessara verkefna. Á þessu ári hefur verið unnið að sölu hlutabréfa ríkisins í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. í áföngum. Allur kostnaður við sölu hlutabréfanna færist á þennan fjárlagalið, þ.m.t. sölulaun. Gerðir hafa verið samningar við innlenda og erlenda ráðgjafa um aðstoð við framkvæmd sölunnar. Áætlaður kostnaður fellur að mestu leyti til eftirtalinna aðila: HSBC bankans í London, Landsbanka Íslands hf., PWC á Íslandi hf., Logos lögmannaþjónustu og Búnaðarbanka Íslands hf., auk kostnaðar vegna þýðinga, skjalavinnslu og fleira.``

Herra forseti. Ég held að það sé augljóst mál að þingheimur er miklu nær væntanlega um það hvernig þessar 220 millj. skipast og miklu nær um það hvers vegna um þær er beðið.

Herra forseti. 1. minni hluti ítrekar það álit sitt sem fram kom við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002 að það sé hlutverk framkvæmdarvaldsins að sjá til þess að vilji Alþingis nái fram að ganga. Nauðsynlegt er að Alþingi sé á hverjum tíma vel upplýst um framkvæmd laga. Það verður síst gert með því að torvelda Alþingi aðgang að upplýsingum og jafnvel koma algerlega í veg fyrir að umbeðnar upplýsingar berist. Slík vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í lýðræðisþjóðfélagi.

Herra forseti. Ég hef lokið að gera grein fyrir nál. 1. minni hluta fjárln., en í þeim minni hluta eru auk mín hv. þm. Gísli S. Einarsson og Margrét Frímannsdóttir.