Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:44:25 (2181)

2002-12-05 14:44:25# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni innanhússpóst sem barst fjárln. frá efh.- og viðskn. Ég skildi nú aldrei hvað þetta bréf var að þvælast þarna milli nefnda og vissi aldrei til þess að fjárln. Alþingis hefði neitt með það að gera hver menntunin væri hjá starfsmönnum nefndasviðs. Ég held að þetta hafi verið algjör misskilningur og enn þá meiri misskilningur hjá hv. þm. að gera þetta að umræðuefni eins og hér væri eitthvað sem við ættum að tala saman um.

Í öðru lagi, herra forseti, langar mig mjög til að fræðast um þá nýju kenningu um hvað væri eðlileg hækkun á ríkisútgjöldum. Fram kom hjá hv. þm. að þarna vantaði 50 milljarða, vegna þess, eins og ég skildi það, að ríkisútgjöldin hefðu átt að hækka í takt við neysluvísitölu. Það er afar merkilegt ef þessi kenning er búin að sjá dagsins ljós og gaman þá að vita í hverju hún er fólgin ef við ættum að miða hækkun ríkisútgjalda við neysluvísitölu. Það var þá alveg óháð öllu öðru. Var það alveg óháð því hvort hagvöxtur væri í landinu, hvort hann væri mikill eða stór plús, eða hvort hann væri í mínus, hvort þjóðinni væri að fjölga eða hvort viðskiptakjörin væru að batna eða versna o.s.frv. Hvernig ætla menn að útfæra þessa nýju hagfræðikenningu um hækkun ríkisútgjalda?