Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:45:55 (2182)

2002-12-05 14:45:55# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:45]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst mál að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hlustar með sínum eyrum, og síðan tekur við kvörnin sem þar er fyrir innan og leiðréttir og breytir eftir því sem henta þykir. Það var enginn að tala um kenningu um eitt eða neitt, hv. þingmaður, heldur var eingöngu verið að benda á viðmið. Þingmaðurinn má svo sannarlega koma með önnur viðmið, og við skulum bera aukin útgjöld ríkissjóðs saman við hvaða viðmið sem koma skulu. Það sem ég var að benda á var að við hlytum að velta því fyrir okkur hvort útgjöld ríkissjóðs væru eðlileg eða hvort þau hefðu vaxið óeðlilega mikið. Þess vegna benti ég m.a. á þessa þróun og bar þetta saman. Við getum vissulega sótt fleiri vísitölur og ég er nokkuð viss um það, hv. þingmaður, að við komumst yfirleitt að þeirri niðurstöðu að ríkisútgjöldin hafi vaxið meira.

Hv. þm. byrjaði ræðu sína á því að hann skildi ekki ákveðið bréf sem borist hefði frá efh.- og viðskn. Það getur vel verið að það hafi farið algjörlega fram hjá hv. þingmanni en á þessu ári var Þjóðhagsstofnun lögð niður og í kjölfarið voru settar upp sérstakar deildir í fjmrn., hjá Hagstofu, einnig hjá forsrn. og enn fremur hjá Alþýðusambandi Íslands. Og nú er verið að bæta við hjá öðrum launþegahreyfingum í landinu, 10 millj. kr. er gerð tillaga um nú við þessa umræðu.

Þess vegna kom það upp í umræðunni þegar verið var að leggja niður Þjóðhagsstofnun hvort ekki væri eðlilegt að hluti af því sem þar var færi inn til þingsins. Ég man ekki betur en bæði hæstv. forsrh. og síðan hæstv. fjmrh. hafi tekið undir þau sjónarmið að vissulega kæmi vel til greina að athuga hvort ekki mætti gera slíkt. Og það bréf sem ég gerði að umræðuefni er einmitt árétting efh.- og viðskn., tel ég, á því að eðlilegt væri að skoða slíka hluti.

Málið er það, hv. þingmaður, að það er efh.- og viðskn. sem sendir þetta bréf. Það er undirritað af nefndarritara fyrir hönd formanns efh.- og viðskn. og ég veit ekki betur en að nefndin hafi verið samdóma um að senda þetta bréf.