Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 14:54:18 (2187)

2002-12-05 14:54:18# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[14:54]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að hlífa hv. þingmanni við því að rifjað sé upp hvað beið ríkisstjórnarinnar nýju 1995 þegar flokkur sem hann studdi á þeim tíma (Gripið fram í: Ha?) fór frá völdum og ég tel að á síðustu átta árum hafi tekist þannig til í ríkisfjármálum í samvinnu Sjálfstfl. og Framsfl. að það hafi orðið gjörbylting. Staða ríkissjóðs er öll önnur en áður. Afgangur hefur verið af fjárlögum. Stöðugleiki hefur verið tryggður jafnhliða því sem velferðarkerfið hefur verið styrkt. Allt er þetta árangur sem hefur náðst vegna fyrirhyggju, aðhalds og skynsamlegrar stefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta tel ég að þingmaðurinn verði að hafa í huga þegar hann kemur hér með gagnrýnismál sín.

Að sjálfsögðu, hv. þingmenn, bíða alltaf nýrrar ríkisstjórnar ný verkefni. Það verður aldrei öðruvísi. Og að sjálfsögðu er ekki hægt að verða við öllum útgjaldabeiðnum. En ég tel að hv. þm., sem hefur óskað hér eftir löngum ræðum og gefið okkur sýnishorn af því hvernig hann telur að ræður eigi að vera, sem eru ekkert annað en endurtekning og löngu heyrðar tillögur sem hafa farið fram við 2. umr. og fjáraukalög, bjóði ekki upp á ræðumennsku sem hjálpi þinginu í að afgreiða vel þær tillögur sem hér eru fyrir okkur lagðar. Ég hvet hv. þingmann til þess að stytta mál sitt og komast yfirleitt að kjarna þess.