Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:03:49 (2196)

2002-12-05 16:03:49# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:03]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Mig undrar ekki að hv. þm. Einar Odd skuli undra að hann eigi að hlusta á samtök sjómanna hérna. Hann segir að ég sé að fara mannavillt að biðja hann að hlýða á tilvitnun í ráðgjafarþing hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu. Ég átti sæti í ríkisstjórn þegar núv. formaður Framsfl. var að busla í gegn þessum ólögum fyrir frumkvæði Kristjáns Ragnarssonar. Ég, ásamt Matthíasi Bjarnasyni og fleiri mönnum, reyndi að amla gegn þessu í okkar þingflokki. Við margreyndum að koma því að að það yrði tekið til endurskoðunar. Á meðan spilaði hv. þm. Einar Oddur plötur sínar á landsfundum og enginn gerði neitt með það sem hann sagði.

Ég náði ekki þeim breytingum fram eins og ég hefði kosið. Ég var líka of skyldur útgerð í landinu til þess að geta beitt mér af neinum þunga í þessum málum, það veit hv. þm. jafn vel og ég. En ég skal vara mig á því að vera ekki að lesa yfir honum einhverjar ályktanir frá sjómannasamtökum því það á ekki erindi við hann.