Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:09:13 (2199)

2002-12-05 16:09:13# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta er 3. umr. fjárlaga og má segja sem svo að gagnvart útgjaldahlið frv. sé flest sagt sem þarf að segja. Menn hafa farið í gegnum þetta fram og til baka. Við sjálfstæðismenn höfum reynt að gera grein fyrir afstöðu okkar. Við höfum reynt að gera grein fyrir þeirri afstöðu okkar að sannarlega vantar mikið á að ríkisfjármálin séu undir þeim aga sem við vildum hafa þau. Við höfum gert grein fyrir þeirri afstöðu okkar að mjög brýnt væri á næstu árum að huga að því í mikilli alvöru að minnka ríkisreksturinn, koma sem flestum fyrirtækjum ríkisins í einkarekstur þar sem við gætum frekar tryggt að aðhalds væri gætt en reynslan sýnir um hinn opinbera rekstur.

Við höfum sagt þetta mjög skýrt og er engin ástæða til að misskilja okkur á nokkurn hátt vegna þess að það hefur alls staðar komið fram að með þessu væri alls ekki verið að hverfa á neinn hátt frá þeirri samhjálp sem pólitísk samstaða hefur verið um á Íslandi áratugum og aftur áratugum saman, gagnvart þeirri samhjálp sem pólitísk samstaða hefur verið um, bæði milli vinstri og hægri manna í allri Vestur-Evrópu og er ekki deilt um. Þess vegna var það leiðinlegt, herra forseti, að heyra að á miðstjórnarfundi Framsfl., okkar ágæta samstarfsflokks, kaus formaðurinn að misskilja þetta allt saman og hélt langa ræðu til varnar samhjálpinni sem var allt byggt á misskilningi. Við höfum aldrei talað neitt í þessa veru, ekki nokkurn skapaðan hlut. Sjálfstfl. hefur alltaf verið í forustu fyrir því að bæta hér samhjálp eins mikið og við höfum nokkur efni á. Þannig er saga hans öll.

Það er heldur hitt, herra forseti, að ég tel meiri líkur á að þarfara sé fyrir okkur í dag að horfa aðeins á tekjuhlið fjárlagafrv. og velta því nokkuð fyrir okkur hvernig við stöndum, hvar við erum og á hvaða leið. Við höfum verið á mikilli farsældarbraut lengi, mjög mikilli, meiri en flestar aðrar þjóðir heimsins, meiri en aðrar þjóðir Evrópu. Við höfum getað státað af því að hér hafa öll kjör allra batnað meira en annars staðar í Evrópu. Um það vitna allar skýrslur Þjóðhagsstofnunar jafnt sem Hagstofunnar svo og annarra sem fást við statistískar rannsóknir á Íslandi, allra. Ekkert er þar undanskilið. Breytir engu þótt menn komi hér upp og segi að þetta sé bara ekki rétt, það breytir engu. Ég hef ekki talið ástæðu til að ég væri hér í forsvari fyrir þessar opinberu stofnanir, hvorki Þjóðhagsstofnun, sem nú er búið að leggja niður og sumir harma svo mjög, né öðrum sem allar hafa sýnt fram á þetta sama. Það hefur verið stöðugur vöxtur hjá öllum aðilum á Íslandi.

Hins vegar eigum við í dag að horfa framan í það að á þessu ári samkvæmt nýjustu spá gera menn ráð fyrir 0,25% hagvexti. 0,25% er innan skekkjumarka. Það er sama sem núll og það er mjög hættulegt, það er mjög slæmt og við verðum að horfa á það í mikilli alvöru að það er alvarlegt fyrir eina þjóð að hafa stoppað í hagvextinum, það er mjög alvarlegt. Við verðum að horfa til þess hvernig það megi vera og hvaða leiðir við höfum út úr því. Við erum að vísu með spá um það að á næsta ári verði þetta örlítið betra, en ég vil segja það hér og nú, herra forseti, að það er alls ekki ásættanlegt á nokkurn hátt. Þessi þjóð, Íslendingar, með þeim kröfum sem hún gerir til sjálfrar sín, með þeim kröfum sem hún gerir til hins opinbera, mun aldrei sætta sig við minna en að við göngum út frá nálægt 3% hagvexti á ári. Þjóðin vill vera á þeirri ferð. Á þann hátt vill hún horfa upp á að kjör hennar batni og umhverfið allt batni. Við erum því í mjög alvarlegri stöðu.

Mér er því dálítið undrunarefni ýmislegt varðandi þetta núna, þegar við erum stopp með hagvöxtinn. Mér finnst menn ekki hafa nægar áhyggjur af því. Við gerðum t.d. lagabreytingar ekki alls fyrir löngu, vorum allir mjög stoltir af því þegar við gerðum þá lagabreytingu að Seðlabanki Íslands væri sjálfstæð stofnun og óháð í öllu framkvæmdarvaldinu. Milli framkvæmdarvaldsins og Seðlabankans er í dag bara einn samningur og hann liggur fyrir, það er sameiginlegt verðbólgumarkmið. Núna stöndum við þannig að á Íslandi eru um 2,5--3%, 250--300 punktar sem vextir standa hér hærra en eðlilegt mætti teljast og samt gerist ekki neitt. Seðlabankinn hefur jú verið að lækka vexti en hann hefur lækkað þá svo hægt að það hefur verið hægar en verðbólgan þannig að raunvextir hafa verið að hækka í landinu, landi með engan hagvöxt. Ég skil þetta ekki og mér líður hálfilla yfir þessu. Mér líður svona eins og manni sem er nýbúinn að kaupa sér fallegt barómet sem sýnir alltaf vont veður þó að logn og sólskin sé úti. Ég held að mín ágæta ríkisstjórn verði að fara að huga til þess hvort ekki séu einhver ráð gagnvart þeirri stofnun. Ég veit ekki hvort þar dugar eitthvert leiftursnöggt högg í höfuðið, hvort það mundi duga í þessu tilfelli en það verður þá að athuga það eða eitthvað annað því að við þetta verður ekki búið nema við ætlum viljandi að horfa upp á það að íslenskt atvinnulíf búi við svo skerta samkeppnisstöðu að það stefni í voða. Við verðum að horfa til þess að það gengur ekki lengur að láta því ómótmælt hvernig þessir menn geta lifað alveg sínu lífi og virðast algerlega einangraðir frá því efnahagslífi sem er á Íslandi.

[16:15]

Herra forseti. Ég er sannfærður um að mjög brýnt sé að taka þetta alvarlega og horfa til þess að við verðum að gera þær ráðstafanir sem tryggja okkur mikinn hagvöxt á Íslandi og ég fullyrði það hér og nú að við getum það. Við höfum það í valdi okkar. Við höfum tvær leiðir til þess. Önnur er að virkja og hin er að veiða. Það eru þessi tvö vöff sem skipta máli og við eigum að horfa til, þ.e. að veiða og virkja. Það höfum við í hendi okkar, það getum við gert og það eigum við að gera.

Ég gerði að umtalsefni við 2. umr. fjárlaga, herra forseti, nokkuð þá fiskveiðiráðgjöf sem við höfum notið nú í 30 ár. Í 30 ár höfum við notið sömu fiskveiðiráðgjafarinnar, þ.e. ráðgjafar sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að byggja upp þorskstofninn, okkar aðalfiskstofn, með þeim ráðum að friða smáfisk, friða smáfisk, friða smáfisk og takmarka sóknina. Í 30 ár hefur ekkert gengið nema aftur á bak. Eftir þessum ráðum er líka farið í Evrópu, þ.e. Vestur-Evrópu, að vísu ekki í Miðjarðarhafinu. Eftir þessum ráðum hefur verið farið við Nýfundnaland og í bönkunum þar í kring og ekkert hefur gengið nema aftur á bak.

Það horfir dálítið öðruvísi við í Barentshafinu vegna þess að þar hafa Rússar og Norðmenn alls ekki komið sér saman um neina friðun og þeir hafa veitt allan tímann gríðarlega miklu meira en ráðgjöfin hefur gert ráð fyrir með þeim árangri að það er lífvænlegt í sjónum og þorskstofninn stendur þar mjög vel.

Og ein er sú hetjuþjóðin hér suðaustur í hafinu sem býr á litlum eyjaklasa og heitir Færeyingar sem lét ekki kúga sig af þessari endemis dellu. Þeir brutust undan veldi Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar, hvers páfi situr í Kaupmannahöfn. Þar er Vatíkanið. Þeir brutu sig út úr því, höfðu til þess kjark og þor. Sjávarútvegsráðherrann þar hefur nú ekki verið að skafa af hlutunum og gefið þessum mönnum sína réttu einkunn og sagt það sem hann meinti. (GÁS: Styður þingmaðurinn ríkisstjórnina? Hvernig er það eiginlega?) Þingmaðurinn skal koma að því að tala um ríkisstjórnina á eftir, herra fyrirspyrjandi. En svo eru sérstakar aðferðir til þess að gera fyrirspurnir, sem þú, einn af forsetum þingsins, gætir þá rifjað upp og farið yfir það hvernig menn gera það. (GÁS: Hver er spurður?)

Á baksíðu viðskiptablaðs Morgunblaðsins í dag er heilmikil grein þar sem segir frá fiskveiðum við Færeyjar. Þar er sagt frá því að þeir séu að veiða þar verulega miklu meira en þeim hafi verið ráðlagt með þeim eina árangri að afli á fiskveiðieiningu vex og stofnstærð fiskanna, hrygningarstofninn vex líka. Morgunblaðið segir hins vegar ekki frekar en aðrir fjölmiðlar á Íslandi frá því hvað hér búi að baki. Hér búa að baki gríðarleg pólitísk átök í Færeyjum, átök sem eru mjög athyglisverð, þ.e. átökin milli vals og vísinda.

Ég er hér með tölurnar fyrir síðasta ár og kannski er fróðlegt, herra forseti, að menn átti sig á því um hvað er að ræða.

Árið 2000 lagði fiskveiðistjórnarrannsóknarstofan í Færeyjum til að veidd yrðu 16 þús. tonn af þorski. Færeyska landstjórnin fór í engu eftir því og veiddi 21 þús. tonn. Eigi að síður gerði rannsóknarstofan tillögu um það árið eftir að áfram skyldu nú veidd 16 þús. tonn. Landstjórnin fór í engu eftir því og leyfði veiðar og nú veiddu þeir 27 þús. tonn. En hvað með stofnstærðina? Hún óx. Hún stækkaði. Hrygningarstofninn stækkaði.

Þriðja árið, þ.e. árið sem núna er rétt að líða, gerðu þeir nú samt ráð fyrir því, þrátt fyrir vöxtinn í stofnstærðinni, að þeir skyldu nú færa sig niður í 14 þús. tonn. Við höfum ekki endanlegar tölur. Úrslitin verða ekki alveg ráðin fyrr en eftir mánuð. Líklega verða þetta einhvers staðar í kringum þessi sömu 27--30 þús. tonn. En stofnmælingin liggur fyrir. Og á þessum tíma hefur hrygningarstofninn vaxið úr 40 þús. tonnum í 53 þús.

Það er gegn þessu ofbeldi og gegn þessari vitleysu sem færeyska landstjórnin hafði kjark, getu og vilja til að rísa. (GE: Tók þrjá mánuði.)

Ég get farið yfir ýsuna líka. Ég get farið yfir ufsann. (LB: En íslenskar?) Færeyski --- það er kannski ljótt að hafa þetta eftir --- en einn færeyski ráðherrann, skulum við segja, hafði orð yfir þessa menn: ,,Biologiske terrorister``. Það voru orðin. (Gripið fram í: Þeir eru víða.) Það er nákvæmlega sama með ýsuna og það er nákvæmlega sama með ufsann. Afli á sóknareiningu vex vegna þess að verið er að búa til lífsrými fyrir þennan fisk.

Hvað er að gerast á Íslandi, á Íslandi þar sem ein stofnun má rannsaka og aðeins ein stofnun má vinna úr gögnunum? Háskóli Íslands hefur ekki aðgang að þeim. Bara ein stofnun fær aðgang, bara hún sjálf. Þetta er stofnun þar sem óleyfilegt er að nokkur maður sem vinnur þar hafi sjálfstæða skoðun. Það er bannað. Honum ber að hafa þá skoðun sem stofnunin hefur.

Það er nauðsynlegt að almenningur á Íslandi átti sig á því að svona fasismi viðgengst hér undir stjórn ríkisins. (GE: Hvar er hæstv. sjútvrh.?) Það er lífsnauðsynlegt að gera vísindin frjáls. Það er lífsnauðsynlegt að Háskóli Íslands og aðrar vísindastofnanir fái að vinna úr þessum rannsóknargögnum jafnt og Hafrannsóknastofnun. (Gripið fram í.) Það er lífsnauðsynlegt vegna þess að framtíð okkar byggist á því að fiskstofnarnir hér fái að vera eðlilegir. Við byggðum upp landsbyggðina, við byggðum upp þetta land miðað við eðlilegan afrakstur sem var 350--370 þús. tonn af þorski. Það er enginn, herra forseti, að halda því fram að nokkur leið sé að rétta hag landsbyggðarinnar á Íslandi öðruvísi en að við komum þessu í eðlilegt horf.

Það sem gerist á Íslandsmiðum liggur líka fyrir. Vaxtarhraðinn minnkar. Kynþroskinn fer fyrr af stað. Nú er allt að eins kílós fiskur við Norðurland að hrygna. Og hvað gerist? Hann deyr. Svo koma þessir menn og vanvirða sín eigin rannsóknargögn, vanvirða þau árum saman aftur í tímann, vanvirða þau og segja: ,,Fiskurinn sem allir vissu að var til, sem fyllti Halamiðin, gekk upp á grunnslóðina, fyllti alla firði, gekk upp í læki á Vestfjörðum þar sem að krakkarnir gátu leikið sér að þorskinum, hann var ekki til.``

Herra forseti. Ég hef orðið þess var að á undanförnum mánuðum hefur Háskóli Íslands haft vaxandi áhuga á þeim bókmenntum sem fjalla um Barbapabba. Það er mjög fjallað um hann í háskólanum. Af því að ég sé nú að einn hv. þm. sem líka er prófessor við háskólann situr hérna þá vil ég minnast á þennan nýja áhuga háskólans á Barbapabba. Ég las þessar bækur áður fyrr þá börnin mín voru ung og smá og ég jafnt og þau hafði mikið gaman af ákveðnum hlutum í þessum bókmenntum, en það voru svokallaðar barbabrellur. Þær voru ákaflega athyglisverðar. Ég fullyrði, herra forseti, að í allri sögu lýðveldisins hefur aldrei átt sér stað önnur eins barbabrella og þegar Hafrannsóknastofnun datt í hug að segja að 600 þús. tonnin sem allir vissu að voru til, hefðu bara aldrei verið til, þetta væri bara misskilningur og enginn tekið eftir því. Þetta er stærsta barbabrella lýðveldissögunnar.

Menn eiga líka að átta sig á því að þetta hefur gengið svona í 30 ár og þær fjárhæðir sem hér eru í veði eru nú stærri en ég reikna með að flestir skilji. Við erum hér að fjalla um fjárlög ríkisins. Um hvað fjalla þau? 270 milljarða, 270 þúsund milljónir. Það eru smámunir miðað við þær tölur sem hér eru í húfi.

Því segi ég, herra forseti, að við verðum að koma hagvextinum upp á Íslandi. Það liggur alveg fyrir að við getum gert það með því að auka veiðar og það er líka lífsnauðsynlegt að auka þessar veiðar. Við verðum að gera það, eigum að gera það og getum gert það.

Fiskveiðistjórnin er nú þannig að enginn botnar í henni. Fyrstu dagana í nóvember var ég að keyra um þann ágæta fjörð Arnarfjörð. Bíðið við, hverjir voru þá staddir í firðinum? Það voru átta stórir nótabassar með dragnætur. Ég veit ekki hvort þingheimur, herra forseti, kann skil á þessum veiðarfærum en ég veit hvernig þau eru útbúin. Þetta er allt með bobbingum undir sér. Þeir eru uppi í kálgörðum að veiða og þetta er talið allt í lagi. Þarna er verið ryðjast á náttúruna.

Á sama tíma, herra forseti, og ég horfði á þessa átta pramma í Arnarfirði var gott fólk saman komið í einu bíóhúsi Reykjavíkur. Það söng Ísland ögrum skorið og einhver fleiri ljóð vegna þess að það var tárvott yfir því að einhver nástrá við Norðlingaöldu skyldu fara undir vatn. Þetta er gott fólk og blessað. En slíkt er náttúruleysi þessara náttúrusamtaka að enginn getur litið til þess að sú náttúra sem fæðir okkur og klæðir er undir yfirborðinu. Enginn hefur áhuga á henni, ekki nokkur maður.

Við þarna eigum gríðarlega möguleika og það liggur alveg fyrir og allir vita að Norðlingaalda er hagkvæmasta virkjunin. Stíflan þar sem er mjög lítið mannvirki mun að vísu setja í kaf 1,4% af gróðurlendinu þar, 1,4%. Þar eru níu tegundir af fuglum. Enginn þeirra er á neinum válista. Þeir geta allir flogið og flutt sig. Þar eru nokkur gæsahreiður líka. Þær geta bæði synt og flogið, gæsirnar. Sá stofn vex mjög, sérstaklega við það fallega fjallalón sem kallað hefur verið Blöndulón en heitir náttúrlega Blönduvatn.

Getið er um það í skýrslunni að þarna séu tvö tófugreni. Það er ekkert sagt um hagamýs. Þetta er nú málið. Þetta er hagkvæmasta virkjunin sem Ísland getur farið í og á kost á. Þessi virkjun sem við getum farið í orsakar það að vatnið streymir ekki niður Efri-Þjórsá heldur gegnum virkjanirnar allar fyrir ofan, þ.e. gegnum sex virkjanir. Þetta er mesta hamingja sem við getum fengið gagnvart því að efla hagvöxt og byggja hér upp öflugt atvinnulíf. Það liggur á borðinu og við höfum samninga um þetta líka. Við getum gert þetta hvort tveggja. Við getum ráðið því, við getum stjórnað því að hér verði mikill hagvöxtur á næstu árum. Við eigum að gera það. Okkur ber skylda til að gera það af því að við berum ábyrgð á velferð þessarar þjóðar. Við viljum halda áfram á þeirri farsældarbraut sem við erum og höfum verið á. Það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir er traustur grundvöllur, mjög traustur grundvöllur til að byggja á. Við ætlum ekki að staldra við. Við ætlum að halda áfram á þeirri farsældarbraut. Við getum gert það og ég vona, herra forseti, að við berum gæfu til þess.