Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:33:36 (2203)

2002-12-05 16:33:36# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru mjög margir sem taka undir það. Ég fór yfir reynsluheiminn, hann liggur fyrir. Ég fór yfir reynsluheiminn í Færeyjum, hann liggur fyrir. Það eru þúsundir vísindamanna sem hafa gert athugasemdir við þetta. Það eru til gögn um það mjög víða og ég get ekki talið það upp á þessari einu mínútu. Ég hef bent á Seðlabankann, að það væri mjög undarlegt að þeir ættu aldrei nein ráð nema hávexti, og ég vara við því að við séum í mjög hættulegri stöðu. Hvernig stendur á því að við með svona lítinn hagvöxt eða nánast engan rekum þetta þjóðfélag með miklu hærri vöxtum en aðrir?

Ég bendi mönnum á að við höfum verið að bæta kjör Íslendinga allra, og samstarf aðila um það hefur alltaf verið til. Hver ætlar að halda því fram að það sé pólitískur skortur á vilja til að hjálpa fólki þó að við vitum að aukin neyð hefur orðið hér? Það á ekkert skylt við pólitík. Allar statistískar tölur benda til þess og sýna það óumdeilanlega að kjör fólks hafa farið batnandi alls staðar og alltaf. Ógæfa fólks á ekkert skylt við þetta. Menn eiga þá að sýna það í verki sjálfir en ekki kenna einhverri ríkisstjórn um það.