Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:35:05 (2204)

2002-12-05 16:35:05# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:35]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hv. þingmanni upphafsorð hans að hluta, þegar hann ræddi um skort á aga í ríkisfjármálum, þegar hann ræddi um að það skorti aðhald í útgjöldum ríkissjóðs. Ég verð að segja, herra forseti, að það gladdi mig mjög að hann tæki undir með því sem ég sagði áðan þrátt fyrir að hann hefði farið í andsvar við mig fyrr í dag út af sömu hlutum. (Gripið fram í: Fulltrúi Samfylkingarinnar.) Og það sem merkilegt er, herra forseti, er að það sem hann sagði er auðvitað að vegna þess að aðhaldið skorti taldi hann eðlilegt að einkavæða hér og þar og alls staðar. Hvers konar uppgjöf er þetta? Hvers konar eftirmæli eru þetta um ríkisstjórnina sem hv. þm. hefur stutt, nú til fjölda ára? Er ekki kominn tími til að hv. þm. komi alklæddur út úr skápnum og segi okkur hvort hann er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar eða ekki? Það gengur ekki að eilífu að tala ætíð gegn meginstefnu ríkisstjórnarinnar en sitja svo ætíð hér á takkanum þegar á reynir. (Gripið fram í: Græni takkinn.)