Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:46:08 (2213)

2002-12-05 16:46:08# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg furðulegt að ég skuli upplifa það að menn efist um að ég sé einn af hinum góðu stríðsmönnum Sjálfstfl., hef alltaf verið það og aldrei hvikað frá barnsaldri og engin von til þess fyrir menn að ímynda sér, andstæðingana, að ég muni neitt bregðast þar.

Hins vegar hef ég alltaf barist á móti þessari fiskveiðistefnu, alltaf hreint. Það voru framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sem byrjuðu. Síðan var það Alþfl. eða hvað þeir heita nú, þeir skipta alltaf um nöfn, kommúnistarnir eða Alþb. eða hvað þeir hétu, þeir mynduðu stjórn hér með einhverjum fjórum flokkum, þeir breyttu þessu ekkert, þeir hafa alltaf fest böndin. Síðan tók Alþfl. við og Sjálfstfl., síðan Sjálfstfl. og Framsfl.

Af hverju ætti ég að fara úr einum flokki í annan til þess að berjast á móti þessari fiskveiðistefnu? Hvaða flokkur hefur verið á móti henni sem hefur setið í ríkisstjórn? Varð það Alþb., var það Alþfl., var það Framsfl.? Nei. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa allt frá því að þessi ósköp byrjuðu, 1984, tekið þátt í því að standa vörð um hana, alltaf hreint. Og ætti ég að koma út úr einhverjum skáp? Þið talið eins og talað er um homma, þeir ku allir hafa vera inni í einhverjum skápum.

Nei, ég hef alltaf verið í þessum flokki, herra forseti, og engin von til þess að ég fari neitt að breyta þar til um.