Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:49:50 (2216)

2002-12-05 16:49:50# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar er og hefur verið að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla, treysta undirstöður atvinnulífsins og tryggja varanlegan stöðugleika. Þessi meginmarkmið hafa náðst með góðri stjórn efnahagsmála. Skattalegt umhverfi fyrirtækja hefur tekið miklum breytingum undanfarinn áratug og meginbreytingarnar hafa falist í lækkun skatthlutfalls tekjuskatts úr 51% árið 1990 í 18% frá og með tekjuárinu 2002. Jafnframt hefur ýmsum undanþágum verið fækkað og skattstofninn því breikkaður.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt skattalækkanir á fyrirtæki en það eru veigamikil rök fyrir skattlækkunum jafnt á fyrirtæki sem einstaklinga og nú hefur ríkisstjórnin ákveðið umfangsmiklar breytingar í skattamálum.

Þegar ríkisstjórnin lækkaði skatta á fyrirtæki úr 51% í 30% á sínum tíma kom í ljós að sú lækkun skilaði meiri tekjum í ríkissjóð en áður höfðu komið inn, þvert á það sem ýmsir töldu. Lækkun skatthlutfalls hefur ekki leitt til minni tekna ríkissjóðs, þvert á móti hafa tekjurnar nær tvöfaldast á þessu tímabili. Skýringin er fyrst og fremst meira en tvöföldun skattgreiðenda úr 3.500 árið 1991 í tæplega 8.000 árið 2002. Þau markmið sem stefnt var að með breyttum skattareglum hafa náðst sem sést í eflingu atvinnulífsins sem hefur hvort tveggja leitt til hærri tekna ríkissjóðs og fleiri atvinnutækifæra.

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina vegna skattalækkana á fyrirtæki og á sama tíma komið fram með hugmyndir um aukin útgjöld. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa gert ríkisstjórninni kleift að tryggja betur hag þjóðarinnar.

Ég hygg að það sé óumdeilt að meira jafnvægi ríki í efnahagsmálum um þessar mundir en um árabil. Verðbólgan er á hraðri niðurleið, viðskiptahallinn sömuleiðis, kaupmáttur heimilanna hefur aukist samfellt frá árinu 1994 og er nú meiri en nokkru sinni fyrr. Vextir lækka hratt og verulega hefur dregið úr skuldsetningu fyrirtækja og einstaklinga. Það bendir því flest til þess að íslenskt efnahagslíf sé að taka við sér á nýjan leik eftir skammvinna niðursveiflu og fram undan sé nýtt hagvaxtarskeið.

Fjármálaráðuneytið hefur nú endurskoðað þjóðhagsspá fyrir árin 2002 og 2003 sem er í meginatriðum samhljóða haustspá ráðuneytisins. Reiknað er með 0,25% hagvexti árið 2002 og 1,33% á næsta ári eða um fjórðungi prósentu meira hvort ár en í fyrri spá. Verðbólga er komin undir verðbólgumarkmið Seðlabankans og vextir hafa lækkað og krónan hefur verið stöðug síðustu mánuði.

Herra forseti. Stjórnendur fyrirtækja virðast einnig vera bjartsýnir á aðstæður í efnahagslífinu. Í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir fjmrn. og Seðlabankann töldu 46% þær vera góðar en einungis 13% töldu þær lakar. Ef horft var fram í tímann ríkti enn meiri bjartsýni og eftir tólf mánuði töldu nær 70% að aðstæður yrðu betri en nú en einungis 7% að þær yrðu lakari. Þessi könnun var gerð, að ég tel, með viðhorfskönnun hjá forráðamönnum 400 veltuhæstu fyrirtækja landsins.

Herra forseti. Afli og aflaverðmæti hafa aukist frá fyrra ári en verð hefur þó lækkað í íslenskum krónum frá því á fyrra helmingi þessa árs í takt við styrkingu krónunnar.

Atvinnuleysi hefur því miður farið vaxandi að undanförnu en áfram er þó gert ráð fyrir að atvinnuleysi nemi að meðaltali um 2,5% þetta ár og að það muni aukast á næsta ári, en árið 2004 muni það minnka aftur með auknum hagvexti og meiri eftirspurn eftir vinnuafli. Hér á landi höfum við áhyggjur þegar atvinnuleysi er yfir 1,5% þegar aðrar þjóðir í Evrópu eru að kljást við atvinnuleysi um 10% eins og við heyrðum í fréttum í gær frá Þýskalandi.

Íslendingar eru vinnusöm þjóð og við eigum mjög erfitt með að þola það að fólk hafi ekki vinnu. Miklar áhyggjur eru t.d. í Vestmannaeyjum þar sem fiskvinnslufólk fær ekki vinnu í greininni og hefur ekki að neinu öðru að hverfa. Við því þarf að bregðast á einhvern hátt.

Herra forseti. Ég vil geta um nokkur mjög mikilvæg verkefni í fjárlagafrv. Lagt er til símenntunar og fjarkennslu 72 millj. á níu stöðum á landinu. Þar kom eitt nýtt verkefni í viðbót við þau átta sem fyrir voru og það verkefni er í Vestmannaeyjum.

Skógræktarverkefnin, fjárveitingar til landshlutabundinnar skógræktar eru 250 millj. kr. sem hefur mikla þýðingu fyrir dreifbýlið og þá breyttu stöðu sem er í landbúnaði í dag. Sérstaklega er þetta mikilvægt vegna þeirra verkefna sem ákveðið hefur verið að fara af stað með.

Þá hefur töluverðu verið bætt við til mæta vanda hjúkrunarheimila um allt land. Lagt er til að veitt verði 300 millj. kr. fjárheimild til að hefja rekstur hjúkrunarheimilisins á Vífilsstöðum og gert er ráð fyrir rekstri 50 hjúkrunarrýma þar og 19 rýma í ,,húsinu á hólnum``. Lagt er til að í fjáraukalögum fyrir árið 2002 verði veitt 130 millj. kr. framlag til endurbóta á húsnæðinu og til kaupa á búnaði. Er það í samræmi við tillögur samráðsnefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um að efla þjónustu við aldraða og draga úr biðlistum. Þá er lagt til að framlag hækki um 90 millj. kr. til að fjölga hvíldarinnlögnum árið 2003. Er tillagan líka í samræmi við tillögur samráðsnefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um að fjölga hvíldarinnlagnarýmum um 20 á næsta ári. Loks er lagt til að 40 millj. kr. verði varið til að fjölga dagvistarrýmum á næsta ári í samræmi við niðurstöður samráðsnefndarinnar. Samkvæmt tillögunum er áformað að fjölga dagvistarrýmum um 100 á næstu árum og er framlagið miðað við að unnt verði að opna allt að 50 rými á næsta ári. Hækkun á þessum lið nemur alls um 440 millj. kr. og til hjúkrunarheimila verður þá þessi liður 642,3 millj. Þá er einnig lagt til að framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki um 98,1 millj. kr.

Herra forseti. Tillögur meiri hluta fjárln. fela í sér að tekjujöfnuður A-hluta ríkissjóðs verði um 11,5 milljarðar kr. Góð stjórn efnahagsmála núverandi ríkisstjórnar hefur leitt til þess að stoðir velferðarkerfisins eru tryggðar enn frekar. Þegar saman fer góð stefna annars vegar og styrk stjórn efnahagsmála hins vegar er hægt að leggja fram metnaðarfull fjárlög. Það hefur tekist fyrir árið 2003.