Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 16:58:02 (2217)

2002-12-05 16:58:02# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[16:58]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ólíkt var að hlýða á ræðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur miðað við ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hér talaði augljóslega fulltrúi flokksins sem mærði allt sem ríkisstjórnin hefur látið frá sér fara og telur að það sé forsenda góðra verka á nýju ári.

Í fyrsta lagi vegna ræðu hv. þm. og þess sem hún sagði um þá stöðu sem uppi er í Vestmannaeyjum er náttúrlega aðeins eitt um það að segja, að það atvinnuleysi sem þar hefur farið ört vaxandi er aðeins einu um að kenna og það er þeirri fiskveiðistjórn sem hér hefur ríkt um nokkuð langt skeið og þarf ekki að fara mörgum orðum um hana, enda ætla ég ekki að eyða frekari orðum að henni að sinni.

Megintilefni þess að ég óskaði eftir því að veita hv. þm. andsvar eru fullyrðingar hv. þm. um lækkun skatthlutfalls og lækkun skatttekna o.s.frv. sem er til þess fallin að efla íslenskt atvinnulíf. Af því tilefni langar mig að spyrja hv. þm. hvernig hún les úr því að heildartekjur ríkisins, þ.e. það sem ríkið er að taka af vergri landsframleiðslu hefur farið úr 36% árið 1996 í það að vera áætluð tæp 42% á árinu 2003. Með öðrum orðum, ríkið er að auka um 7% hlut sinn í vergri landsframleiðslu á þessu tímabili.

Því spyr ég hv. þm. vegna orða hennar hér áðan: Hvernig skýrir hún þetta aukna hlutfall tekna ríkissjóðs í vergri landsframleiðslu? Þá er ekki síður á það að benda að ríkissjóður tók 76 milljarða í skatta á tekjur og eignir árið 1996 en áætlar að taka 170 milljarða árið 2003. Þess vegna væri fróðlegt að hv. þm. útskýrði þetta fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi.