Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 17:00:21 (2218)

2002-12-05 17:00:21# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[17:00]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það fyrsta sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefndi um fiskvinnsluna í Vestmannaeyjum þá held ég að alveg sé hægt að breyta því án þess að breyta fiskveiðikerfinu, m.a. með breyttum reglugerðum og með því að menn flytji ekki fiskinn óunninn úr landi. Ég held að það sé einfaldlega ákvörðun sem hver og einn getur tekið sem stendur í þeim viðskiptum.

Varðandi lækkun skatta á fyrirtæki þá sýndi það sig þegar skatturinn var lækkaður úr 51% í 30% að betri innheimta varð á skattinum og það er kannski vegna þess að fólk er þá ekki eins mikið að reyna að draga undan skatti þegar skattheimtan er hófleg en ekki of mikil. Ég held að það sé m.a. þess vegna.

Vegna aukinna tekna í ríkissjóð þá skulum við ekki gleyma því að miklar kauphækkanir hafa orðið í landinu og auðvitað skilar það skatti í ríkissjóð.