Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 20:47:23 (2227)

2002-12-05 20:47:23# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[20:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við ræðum nú lokaafgreiðslu fjárlaga næsta árs og margt hefur komið fram í dag sem hefur verið áhugavert, margt af því höfum við heyrt áður en í 3. umr. koma mismunandi áherslur flokkanna skýrast fram og er í raun og veru tekist á um strauma og stefnur.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum með nál. fulltrúa okkar í fjárln., hv. þm. Jóni Bjarnasyni, gert grein fyrir áherslum okkar og það gerði hv. þm. hér vel í dag og fór yfir helstu þætti bæði í fjárlagafrv. og eins dró hann fram áherslur okkar og hvað skilur að stefnu ríkisstjórnarinnar og stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Herra forseti. Þó svo að ýmislegt sem var vanáætlað í fjárlagafrv. þegar það var lagt fram á fyrstu dögum þingsins, hafi verið lagað bæði með fjáraukalögunum og eins þeim breytingum við 2. umr. sem meiri hluti er hér fyrir og samþykktar hafa verið þá eru, eins og margoft hefur komið fram, fjáraukalögin orðinn hálfgerður skrípaleikur og bera merki um óraunhæfa fjármálastefnu. Lesa má ræður margra okkar þingmanna frá því á síðasta þingi þar sem við bentum á marga liði sem voru greinilega vanáætlaðir og upp á mjög háar upphæðir eins og hjá Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem hlytu að koma hér inn á borð okkar aftur og það hefur reynst rétt.

Sumt hefur verið lagfært og annað ekki. Má kannski helst nefna vanda framhaldsskólanna sem enn er óuppgert mál og hagur þeirra mun ekki verða réttur á næsta ári að öllu óbreyttu. Eins má nefna rekstrarvanda þeirra heilbrigðisstofnana sem eru vítt og breitt um landið, hvort heldur það eru heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnanir þar sem heilsugæslustöðvar eru reknar með sjúkrastofnunum eða einstakar sjúkrastofnanir, dvalarheimili og hjúkrunarheimili. Allar þessar stofnanir eiga þegar í miklum vanda og sá vandi er ekki leystur, hvorki vandi þessa árs í fjáraukalagafrv. né fyrirsjáanlegur halli og vandamál í rekstri næsta árs.

Hæstu fjárhæðirnar eru hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, stofnun sem við viljum gjarnan efla verulega. Það er stofnun sem hefur alla burði til þess að vera mótvægi við þá miklu uppbyggingu sem er hér og létt á starfseminni sem er í höfuðborginni, þ.e. á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, og er eðlilegt að dreifa þar sem margir íbúar eiga kannski auðveldara með að sækja þjónustu til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri frekar en að koma hingað suður.

Í fjáraukalögunum eru 50 millj. lagðar fram í hallarekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri á þessu ári en það er ekki nándar nærri nóg. Hvað varðar aðrar stofnanir hefur ekki borið á neinum leiðréttingum og það mun koma okkur öllum í koll því það er ekki nokkur leið að leggja upp í rekstur næsta árs með verulegan halla á þessu ári og hafa það óbætt og eiga að halda uppi óbreyttri starfsemi. Ég fullyrði, herra forseti, að það er ekki hægt. Þær stofnanir sem ég þekki til eru búnar að skera niður allt sem hægt er að skera niður, og meira er ekki hægt að gera öðruvísi en að draga úr rekstri og eftir því sem mér skilst er ekki ætlunin að stofnanirnar geri það. Þær eiga að halda óbreyttum rekstri og óbreyttri þjónustu en búa við þá skerðingu frá yfirstandandi ári og fara þannig inn í næsta ár með enn þá meiri vanda. Þetta þýðir að við erum að færa til þjónustuna enn frekar, við erum að brjóta niður það sem við hefðum getað byggt upp. Við erum að vísa enn fleirum hingað inn á yfirfullan markaðinn á höfuðborgarsvæðinu og, herra forseti, þetta er röng stefna. Þetta er dýrara fyrir þjóðfélagið. Þetta veldur sjúklingum og aðstandendum miklum óþægindum og er algjörlega ástæðulaust. Ef við getum veitt góða þjónustu í heimabyggð eða í nálægum byggðum, þá eigum við að gera það og byggja hana þannig upp þar sem það er hagkvæmara og betra en að flytja fólk um langan veg á yfirfullan markað.

Því tala ég hér aftur fyrir brtt. á þskj. 565 við frv. til fjárlaga fyrir árið 2003 sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs drógum til baka, en þar er ég flm. ásamt Árna Steinari Jóhannssyni. Þar er aftur lögð áhersla á það að bæta Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri upp það tap sem er á þessu ári umfram þessar 50 milljónir, og það ber að þakka, að þó svo að það komi ekki hér fram í tölum og í fjárlagafrv. þá höfum við loforð fyrir því að farið verði í að undirbúa kaup á ómtæki fyrir Fjórðungssjúkrahúsið sem verður mikil framför. En það þarf að halda áfram nýbyggingum og því standa þessar tölur enn þá.

Hvað varðar aðrar heilbrigðisstofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga þá hefur ekki komið króna þangað, hvorki til heilsugæslusviðs né sjúkrasviðs, þannig að við tökum tillit til halla þessa árs og áætlaðrar þarfar á næsta ári og leggjum því fram tillögu um hækkun, óbreytta frá því sem áður var. En þessar upphæðir miða eingöngu að því að halda algjörlega óbreyttum rekstri, en það er allt í járnum, allt sparað, engin uppbygging, engar framfarir og ekki gert ráð fyrir því að hægt verði að auka sjúkraþjálfun eða fara í þróunarverkefni á Heilbrigðsstofnun Þingeyinga á Húsavík, sem mikill metnaður liggur. Hvað varðar Heilbrigðisstofnun Austurlands þá gildir það sama, að við viljum bæta upp þann hallarekstur sem er á þessu ári og gera stofnuninni kleift að halda í horfinu á næsta ári. Við gerum ekki ráð fyrir neinum breytingum þarna. En mikill áhugi er á því að stórefla endurhæfingu við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og þar er mikill metnaður í gangi, aðstaðan er fyrir hendi en ekki króna til að byggja hana upp. Það mundi verða mikill þjóðhagslegur sparnaður í heilbrigðiskerfinu ef þetta yrði gert. Því leggjum við fram þessar tillögur aftur en tökum tillit til þess hvað varðar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, að 50 milljónir koma inn á fjáraukalögin.

Á þessu sama þingskjali í lið 4 eru aukalega 100 millj. kr. til atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni. Þetta er til uppbyggingar á atvinnuþróunarfélögunum til atvinnuráðgjafar. Ljóst er að ef við ætlum að byggja upp landið og stuðla að áframhaldandi búsetu í dreifðum byggðum og skapa þar grundvöll fyrir nýsköpun til að hlúa að þeim verkefnum sem eru sjálfsprottin á hverjum stað og íbúarnir á hverju svæði hafa áhuga á að koma á nýjum atvinnutækifærum eða þá að möguleikar eru til þess að efla þá atvinnustarfsemi sem fyrir er þá þýðir ekkert að halda áfram á þeirri braut sem nú er farin, þ.e. að veikja atvinnuþróunarfélögin og draga úr sóknarmætti þeirra og allri starfsemi. Ef við viljum efla hér byggð þá eigum við að efla þessar stofur.

Á þskj. 567 leggjum við aftur fram brtt. um hækkun útgjalda til Skógræktar ríkisins og Héraðsskóga. Framlag til Skógræktar ríkisins er vegna skógvistarverkefnis sem ég hef þegar gert grein fyrir. Því er á þskj. 566 einnig 10 millj. kr. framlag til Náttúrufræðistofnunar Íslands um þetta sama skógvistarverkefni. Það eru 10 millj. kr. til hvorrar stofnunar. Þetta skógvistarverkefni er algjör forsenda þess að hægt sé að vinna að þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist með hinni svokölluðu Kyoto-bókun og rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nú er verið að vinna að skógræktar- og landgræðsluaðgerðum og á að ráðast í þær á næstu árum og skipuleggja og framkvæma þær með þeim hætti að nettóbinding kolefnis sem af þeim leiðir verði sem mest að teknu tilliti til annarra markmiða, svo sem verndar líffræðilegs fjölbreytileika. Þetta höfum við undirgengist, en til þess að hægt sé að fara í það verkefni verður fyrst að fara í skógvistarverkefnið og því leggjum við áherslu á að að því verði hlúð.

Á þskj. 567 er framlag til Héraðsskóga 15 millj. kr. Það er vegna átaksverkefnis í grisjun skóga á Héraði. Herra forseti, skógrækt er orðin mjög þýðingarmikil atvinnugrein víða um land og það háttar þannig til að á Héraði, Fljótsdalshéraði, eru mjög hagstæð skilyrði til skógræktar, enda hefur hún þar skotið þar verulegum rótum og mjög margir bændur hafa atvinnu af skógrækt og eru með í Héraðsskóga- og skógræktarverkefnunum. En það er ekki nóg að planta skógi, það þarf líka að grisja hann og hugsa um hann. Það væri mikilvægt til að styrkja veikar búgreinar að stuðla að frekari atvinnu á svæðinu og þetta er ein öruggasta leiðin til að treysta byggð í hinum dreifðu sveitum á Héraði.