Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:09:03 (2232)

2002-12-05 22:09:03# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alltaf gaman að hlýða á hv. þm. Ágúst Einarsson. Hann flutti hér, nú sem endranær, fróðlega ræðu. En það er annað, hann er sjálfum sér samkvæmur. Hv. þm., talsmaður Samfylkingarinnar, studdi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþýðuflokks 1991 og rifjaði það upp að hún hefði þá tekið forustu í því að lækka skatta á fyrirtæki. Síðan þakkar hv. þm. ekki ríkisstjórninni eða stjórnvöldum efnahagsbata sem hann nefnir svo á undangengnum áratug, heldur öðrum aðstæðum, þjóðarsátt --- ég get tekið undir það --- og nefnir sérstaklega til EES-samkomulagið.

Þetta finnst mér sannast sagna oft vera staðhæfing sem menn setja fram án þess að nægileg innstæða sé að baki. Menn hafa t.d. fullyrt að EES-samningurinn hafi fært launafólki umtalsverðar félagslegar umbætur þegar staðreyndin er sú að stærstu framfaraskrefin sem við höfum stigið höfum við Íslendingar gert að eigin frumkvæði. Ég bendi þar á lífeyrismál, fæðingarorlof, margvísleg réttindamál, sem allt er sprottið upp úr íslenskum jarðvegi og hefur ekkert með EES að gera. Getur ekki verið að menn ofgeri túlkun sinni á ágæti EES-samningsins?

Spurningin sem brennur kannski heitast á mér gagnvart hv. þingmanni er hin hliðin á teningnum, sú kjaralega breyting, kjaralega staða, sem orðið hefur hjá millitekjuhópum og láglaunafólki á Íslandi, og ekki síst þeim sem eiga við erfiðleika að stríða, sjúkdóma, örorku, vegna þess að kjör þessara hópa hafa versnað verulega á undangengnum árum. Ég sakna þess að þegar hv. þm. talar um sókn inn í framtíðina og skilgreinir nútíðina leggur hann ekki nægilega áherslu að mínum dómi á þennan hluta samfélagsins.