Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:11:33 (2233)

2002-12-05 22:11:33# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:11]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði hvort ég ofmæti ekki áhrif EES-samningsins. Ég tel svo ekki vera og er ekki einn um þá skoðun. EES-samningurinn skipti gífurlega miklu máli hér. Hann stokkaði raunverulega upp allt efnahagslífið, allt viðskiptaumhverfið, í átt til frjálsræðis sem við sjáum núna á raunverulega öllum sviðum nema á þeim sviðum sem við kusum að hafa sérstaklega okkar umgjörð á, sjávarútvegi og landbúnaði. Ég bendi líka á að hinn félagslegi styrkur EES-samningsins, þ.e. þess sem kemur frá Evrópusambandinu, er ein aðalástæða þess að launasamtök á Norðurlöndum eru hvað mestir hvataaðilar fyrir aðild að Evrópusambandi.

Það eru sömu sjónarmið uppi hjá Alþýðusambandi Íslands og hafa verið mjög sterk fyrir, einmitt ekki einungis því að styðja EES-samninginn heldur líka fyrir aðild að Evrópusambandinu, m.a. vegna þess að hin félagslega verndun launafólks er mjög sterk í Evrópu, miklu sterkari en nokkurn tíma hér á landi. Þessi hefð kemur m.a. mjög sterkt fram í þeim sáttmála sem við lögfestum hér og er innan Evrópusambandsins. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Ég veit að hv. þm. er ekki beint stuðningsmaður Evrópusambandsins en félagsmenn hans erlendis eru flestir þeirrar skoðunar að einmitt þessi umgjörð sem EES-samningurinn, og reyndar Evrópusambandið, veitir sé launafólki mjög hagstæð og mikilvæg.

Ég hef hins vegar alltaf í mínum málflutningi lagt áherslu á að velferðarkerfið hefur ekki af hálfu þessarar ríkisstjórnar verið varið sem skyldi. Við verjum mun minni fjármunum til þess og við gætum ekki að því fólki sem hefur lent utan gátta í þessu frjálsræði sem ég vil hafa samt í hagkerfinu. Ég hef talað fyrir því að við viljum markaðshagkerfi. Við viljum ekki markaðssamfélag, við jafnaðarmenn. Hinn stóri munur sem við tölum hér um þegar við greinum á milli stefnu okkar jafnaðarmanna og stefnu hægri manna, hvort sem er hér á landi eða erlendis, er einmitt þessi setning: ,,Við viljum markaðshagkerfi en ekki markaðssamfélag.``