Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:13:53 (2234)

2002-12-05 22:13:53# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið erfitt að greina þarna á milli. Þegar menn mæra markaðshyggjuna reynist okkur sumum erfitt að sjá línuna á milli markaðshagkerfis og markaðssamfélags.

Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að hægt sé að alhæfa um launamannahreyfinguna á Norðurlöndum hvað varðar afstöðu til Evrópusambandsins. Þannig tók t.d. norska alþýðusambandið afstöðu gegn aðild Noregs að Evrópusambandinu og það eru mjög deildar meiningar innan hreyfingarinnar.

Þegar hins vegar litið er til helstu talsmanna innan stofnanaveldisins, forustumanna, hafa þeir verið á þessu máli. Þegar reynir á vilja almennra félagsmanna, hinnar raunverulegu hreyfingar fólksins, gengur ekki að alhæfa á þann hátt sem hv. þm. gerir.

Það sem ég hef gagnrýnt Evrópusamninginn um hið evrópska efnahagssamstarf fyrir er á hvern hátt það setur lýðræði okkar skorður. Það þröngvar okkur til ráðstafana sem við erum ekki inni á, t.d. í orkugeiranum núna. Við erum neydd til að endurskipuleggja Orkubú Vestfjarða á nákvæmlega sama hátt og orkubúskapinn í Frankfurt á meginlandi Evrópu þó að þarna sé ekki hægt að draga neitt samasemmerki á milli. Við göngum miklu lengra, Evrópubúar, í þessari miðstýringu en t.d. Bandaríkjamenn. Það er þessi skortur á lýðræðislegum vinnubrögðum og þessi árátta til þröngsýnnar miðstýringar sem veldur mér áhyggjum í Evrópusamstarfinu.

Þær breytingar í viðskiptalífinu sem hv. þm. vísar til taka til heimsins alls. Og ég hef varað við þessari einangrunarhyggju, þessari undarlegu einangrunarhyggju sem fram kemur ekki síst hjá krötum, að vilja einskorða sjóndeildarhringinn við Evrópu eina.