Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 22:29:39 (2241)

2002-12-05 22:29:39# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[22:29]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við vorum fyrir hádegið að ræða fjáraukalögin þar sem við vorum að taka inn það sem mönnum fannst á skorta fyrir árið sem nú er að líða.

Í þeirri umræðu, þó ég ætli ekki að blanda henni mikið í þessa, var mikið vikið að því að þeir sem í fjárln. hafa starfað innan stjórnarandstöðunnar héldu því fram að hér væri unnið á skjön við fjárreiðulög og margt af því sem teldist ófyrirséð ætti auðvitað að vera fyrirséð, þ.e. hefði átt að vera í fjárlagafrv. eða að færast yfir í fjárlagafrv. næsta árs. Má að mörgu leyti taka undir þær ábendingar eða gagnrýni sem þar kom fram. Nóg um það.

Herra forseti. Það er ýmislegt sem mig langar að ræða. Ég held ég byrji aðeins á því að ræða hluti sem m.a. hafa áhrif á afkomu, á tekjur ríkissjóðs á hverju ári.

Flestar íslenskar fjölskyldur sem hugsa sæmilega fram í tímann, til jólanna t.d., byrja tímanlega að kaupa jólagjafir og beita þar af leiðandi þeirri skynsemi að gefa sér góðan tíma til þess að stunda innkaupin sér og sínum til hagsbóta. Þetta gera líka aðrir. Ég ætla að gera það hér að örlitlu umræðuefni vegna þess að það tengist tekjum ríkissjóðs. En það tengist líka öðru fyrirbæri sem við höfum oft rætt þótt ég ætli nú ekki að gera það hér að löngu umræðuefni, en það er stjórnkerfi fiskveiða. Ég ætla aðeins að gera einn þátt að umræðuefni hér sem tengist beinlínis fjármálum ríkisins, þ.e. leigu á aflaheimildum.

Ég gat um það áðan að þeir forsjálu byrjuðu snemma að kaupa jólagjafir. Það á líka við um íslenska útgerðarmenn. Þeir byrja snemma að kaupa sér jólagjafir. En jólagjafirnar eru hins vegar í því fólgnar varðandi stjórnkerfi fiskveiðanna að þegar líður að áramótum sem jafnframt eru skattaleg áramót flestra fyrirtækja þá byrja útgerðarmenn að leigja til sín aflaheimildir, safna þeim upp, sérstaklega þeir sem eru í sæmilegum rekstri eða hafa verið með hagnað í sínum rekstrardæmum. Leiga verður náttúrlega útlagður kostnaður og kemur þar af leiðandi inn í skattadæmi fyrirtækjanna um áramót.

Hins vegar bannar ekkert að eftir áramót leigi þessir sömu útgerðarmenn frá sér sömu heimildirnar og þeir leigðu fyrir áramót. Það er algjörlega heimilt. En með þessari innleigu og síðar útleigu, ef þeim þykir svo henta, hafa verið færðir til verulegir fjármunir sem ella kæmu til skatts hjá fyrirtækjunum, þ.e. skattstofn fyrirtækjanna. Þeir hafa sem sagt lagt í kostnað sem getur verið kostnaður sem þeir ætla sjálfir að nýta sér. En það getur líka verið kostnaður sem menn ákveða að leigja frá sér.

Þetta hefur orðið til þess að á undanförnum árum hefur leiguverð á aflaheimildum, herra forseti, ævinlega byrjað að rjúka upp þegar komið er fram í nóvembermánuð og stigið verulega til áramóta. Síðan hefur auðvitað komið upp sú krafa eftir áramót að menn sem leigðu til sín í vaxandi verði vilja svo leigja frá sér á enn hærra verði eftir áramót. Sumir hafa bæði af þessu skattalegt hagræði og fjárhagslegan arð þegar búið er að leigja til baka. Þess vegna má segja sem svo að forsjálir útgerðarmenn hafi þarna fundið leið til þess að laga skattalega stöðu sína og færa sjálfum sér og rekstri sínum ákveðna fyrirgreiðslu.

Þetta er auðvitað til viðbótar við aðrar fyrirgreiðslur í skattalögunum eins og t.d. yfirfæranlegt tap. Varðandi það kom nú svar hér við fyrirspurn frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar kom fram, ef ég man rétt, að yfirfæranlegt tap á milli ára hafi verið á bilinu 700--900 milljónir, þ.e. sem það virkaði til lækkunar tekjuskatts milli ára. Það er auðvitað ekkert einskorðað við útgerð eða fiskvinnslu. Það er auðvitað hin almenna regla í skattkerfinu.

Ég dreg þetta hins vegar fram vegna þess að þetta hefur allt áhrif á stöðu ríkissjóðs og dæmið sem ég nefndi hér um leiguframsal á óveiddum fiski blandast líka inn í skattgreiðslur til ríkisins og þar af leiðandi tekjur ríkisins.

Mig langar aðeins að víkja að öðru efni sem snýr að tekjum ríkisins og tengist sjávarútvegi þó það tengist ekki kvótakerfinu. Það er Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Þar er gert ráð fyrir að taka sérstök gjöld annars vegar af aflaheimildum sem er föst krónutala á hvert þorskígildiskíló og hins vegar gjald af brúttórúmlest skipa, þó með ákveðnu hámarki, þ.e. gjaldið getur ekki farið hærra á hvert skip en 387.000 kr. eða 388.000 kr. Þar stoppar það hversu stór sem skipin eru. Ef gjaldið væri hins vegar línulegt og héldi áfram að aukast miðað við stærð skipanna þá hefði það ekki verið 87 milljónir heldur aukist um 84 milljónir og hefði samanlagt orðið 171 millj. kr., þ.e. tekjur af þessu gjaldi.

Ég hef aldrei fundið nein sérstök rök fyrir því að leggja þetta gjald á stærð skipanna frá tveggja tonna trillunni og upp í eitthvert x þar sem það stoppaði þannig að enn stærri skip sem hefðu mörg hver aflað mikilla tekna greiddu bara eitthvað fast gjald, en allir aðrir línulegt gjald upp að hámarksgjaldinu. Ég verð því að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst þessi gjaldtaka svolítið skringilega útfærð. Þar með er ekki sagt að gjaldstofninn þyrfti endilega að hækka um þessar 84 millj. sem ég nefndi, þ.e. ef þetta væri látið fara alveg upp úr og væri ekki með þessu þaki. Hins vegar væri hægt að breyta gjaldinu þannig að menn tækju sömu krónutölu en stofninn breyttist innan flotans.

Ég held að það væri meira samræmi í því og meira réttlæti. Ég hef ekki fundið nein rök fyrir því að þetta skuli stoppa við þessa upphæð hversu stór sem skipin eru og hversu kraftmikil þau eru og hversu mikil verðmæti þau bera að landi. Þetta er því hvorki í samræmi við tekjurnar né afköstin, herra forseti. Þetta vildi ég sagt hafa um það mál. Þetta lýtur hvort tveggja að tekjum ríkisins.

Herra forseti. Mig langar til að víkja sérstaklega að einu máli sem ég gerði reyndar að umtalsefni við 2. umr. fjárlaga. Þar nefndi ég tvö dæmi, annars vegar um það hvernig mér fyndist að þyrfti að styðja við og styrkja fíkniefnavarnir, þ.e. um að kenna ungmennum að virða sjálf sig og líkama sinn og öðlast skilning á því sem börn að byrja aldrei að nota fíkniefni. Hins vegar lét ég þess getið að mér fyndist frekar naumt skammtað í þá fjárveitingu sem var 500.000 kr.

Síðan ræddi ég um hinn þáttinn, þ.e. þann endann á málinu þegar fólk er búið að vera í mikilli neyslu og miklum erfiðleikum með sitt líf, hefur jafnvel lent í afbrotaferli og öðru slíku og tengdi það við Byrgið, aðstöðu sem komið hefur verið upp í Rockville, endurhæfingarsambýli á Miðnesheiði. Ég lýsti þeirri skoðun minni að standa þyrfti vel við bakið á þessari starfsemi, hún væri þjóðfélaginu til mikilla hagsbóta og ég hefði alla vegana í því sem ég hef verið að kynna mér í þessa veru ekki séð að menn stæðu betur að málum annars staðar varðandi fólk sem lent hefði í harðri fíkniefnaneyslu og afbrotum.

Í fjárlagafrv. hef ég fundið eina tölu sem ætluð er í þessa veru og hún er, ef ég man rétt, 12,7 millj. kr. undir liðnum 07-999 Félagsmál, ýmis starfsemi. Þar stendur að Byrgið, líknarfélag fái 12,7 millj. kr. fjárveitingu.

Herra forseti. Nú vill svo til að ég hef hér undir höndum nokkrar upplýsingar um starfsemi Byrgisins. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi fjárveiting sem þarna er nefnd er ótrúlega lítil til þeirrar starfsemi sem á sér stað í Rockville, endurhæfingarsambýlinu á Miðnesheiði.

Herra forseti. Hér við í upphaf umræðunnar kynnti hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður fjárln., í stuttri ræðu efnisatriði fjárlagafrv. eins og það lítur út núna. Þá gat hann þess að menn hefðu sammælst um, ef ég hef skilið málið rétt, að setja þessi mál í ákveðinn farveg og finna á þeim ákveðna lausn, varanlegri en tekið er fram í þessari fjárveitingu upp á 12,7 millj. kr.

Herra forseti. Ég heyrði að aðrir nefndarmenn í fjárln. stigu hér einnig í pontu og sögðu að þeir væru sömu skoðunar, þ.e. að búið væri að setja þetta mál í ákveðinn farveg. Mér var ekki kunnugt um það þá að svo væri. En ég hef orðið þess áskynja síðan að nú sé til staðar ákveðinn vilji til þess --- þannig vil ég orða það --- að taka myndarlega á varðandi starfsemi Byrgisins. Ég fagna því mjög ef það er réttur skilningur hjá mér og ég fæ ekki betur skilið en að svo sé.

Það breytir hins vegar ekki því, herra forseti, að ég tel mjög tímabært að fara hér aðeins yfir þær upplýsingar sem ég hef um starfsemi Byrgisins. Hér kemur fram í texta og skýringarmyndum sem ég hef fengið að starfsemin er mikil og hún hefur borið talsvert mikinn árangur. Ég vil leyfa mér að lesa örlítið hér úr þessari skýrslu. Hér er tekið saman sjö mánaða tímabil frá 1. 1. 2002 til 31. 7. 2002. Það segir, með leyfi forseta:

,,Á þessu sjö mánaða tímabili hafa 178 skráningar verið gerðar. Sérstök móttöku- og aðhlynningardeild var tekin í notkun í Rockville þann 15. mars sl. Á deildinni rúmast tíu einstaklingar í einu. Þarna er tekið á móti þeim sem koma til meðferðar og veitt læknisþjónusta og lyfjameðferð eftir þörfum. Vakt er á deildinni allan sólarhringinn.

Meðferðarhópurinn frá 1. 1. 2002 til 31. 7. 2002 telur 148 einstaklinga. Alltaf er hvatt til endurhæfingar sem felur í sér að einstaklingurinn fær ákveðin verkefni í hendur. Markmiðið er að sem flestir fari í langtímaendurhæfingu, þ.e. 6--18 mánuði og fái starfsþjálfun við hæfi. Stefnt er að því að skjólstæðingarnir komist aftur á almennan vinnumarkað. Kannanir á meðferðarárangri sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafa sýnt að mestur árangur er hjá starfsþjálfunarhóp með reglubundinn vinnutíma þar sem hæfilegrar ábyrgðar er krafist.

[22:45]

Hluti skjólstæðinganna er í langtímadvöl án markvissrar starfsþjálfunar. Ástæður þess eru mestmegnis þær að þessir einstaklingar eru heimilisfastir á sambýlinu án þess að önnur húsnæðislausn sé í sjónmáli, enn fremur er um vanhæfni til flestra starfa að ræða vegna geðrænna vandamála og stundum líkamlegra kvilla. Þeir sem útskrifast fá undantekningarlítið aðgang að góðum stuðningi í Byrginu, svo sem viðtölum, samkomum og öðru prógrammi. Þeir sem taka þátt í 1--3 mánaða prógrammi teljast ekki til útskriftarhóps, enda óvíst um árangur þeirra, meðferð varir allt frá 3 vikum og upp í 2--3 mánuði. Hins vegar er hluti sem lýkur 3--5 mánaða meðferðarprógrammi með góðum árangri og tilheyrir útskriftarhóp.``

Síðan segir um könnun á félagslegum aðstæðum meðferðarhópsins:

,,69% einstaklinganna koma frá sundruðum fjölskyldum þar sem neysla foreldra, skilnaður, ofbeldi og/eða misnotkun hafði viðgengist í uppeldi þeirra. 58% þeirra voru án framhaldsmenntunar og höfðu einungis grunnskólapróf. 13% höfðu ekki lokið við grunnskóla. 57% skjólstæðinganna voru einhleypir og 26% fráskildir. Aðeins 12% höfðu haft einhverja atvinnu áður en þeir komu í meðferð. Heimilislausir voru 86%. 88% höfðu verið atvinnulaus sl. sex mánuði eða lengur og voru öryrkjar eða fengu félagslega framfærslu við komu í Byrgið. 39% skjólstæðinganna eru með afbrotaferil, 43% eru með geðrænan vanda, t.d. geðklofa og/eða alvarleg kvíða- og þunglyndiseinkenni. Flestir höfðu byrjað neyslu mjög ungir, 11--13 aldur er algeng viðmiðun samkvæmt upplýsingaskráningu. 64% skjólstæðinganna höfðu neyslusögu sem nam 15--25 árum eða lengur. Fjölmennasti aldurshópurinn er þeir sem fæddir eru milli 1950 og 1970, eða 52%.`` --- Fólk á aldrinum 32 til 52 ára.

,,Hlutfall kvenna í meðferð í Byrginu hefur hækkað töluvert, frá 29% samkvæmt þessari skýrslu en var áður 20%. Á þessu ári hófst samvinna Byrgisins og Fangelsismálastofnunar ríkisins um meðferðarúrræði fanga sem afplána fangelsisdóma og þrír einstaklingar í meðferðarhópnum afplána nú eftirstöðvar dóma í Byrginu. Endurhæfingarsambýlið er einnig af og til nýtt sem vinnustaður fyrir samfélagsþjónustuþega, aðallega fyrir Suðurnesjasvæðið.

Þann 31. júlí sl. dvöldu 70 einstaklingar í endurhæfingarsambýli Byrgisins í Rockville. Stefnt er að því að 80--100 pláss verði á sambýlinu í vetur. Vímuefnameðferðarprógramm hefur stöðugt verið þróað og lagað að þörfum þess hóps sem meðferð Byrgisins tekur til. Áhersla er á andlega og líkamlega uppbyggingu þar sem aginn er í fyrirrúmi. Einstaklingurinn er hvattur áfram og aðstoðaður með daglega rútínu allt í átt til samfélagslegrar ábyrgðar og ábyrgðar á eigin lífi um leið.``

Hér er mikið af tölulegum upplýsingum sem ég ætla að fara sérstaklega í gegnum. En ég tel að sá stutti texti sem ég las skýri mjög vel hvaða hlutverki sambýlið í Rockville, starfsemi Byrgisins, gegnir. Ég verð að segja, herra forseti, að ég verð að leyfa mér að treysta því að þær upplýsingar sem menn hafa skipst á og það sem ég hef orðið áskynja í dag sé þess eðlis að fullur vilji sé, bæði hjá ríkisstjórn og örugglega hjá öðrum þingmönnum, eftir því sem menn hafa talað, t.d. aðrir hv. þm. úr fjárln., til að taka myndarlega á þessu máli.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að í þessu máli sé unnið að mjög þörfum hlutum og sú uppbygging og endurhæfing sem á sér stað í Byrginu sé þjóðfélaginu mjög dýrmæt og láta megi mikla fjármuni til þessarar starfsemi án þess að nokkurn tíma verði hægt að færa rök fyrir því að þjóðfélagið tapi á því. Ég hygg að þjóðfélagið muni ævinlega hagnast á þeirri starfsemi sem þar er rekin og þeim markmiðum sem menn hyggjast ná með henni.

Við höfum auðvitað gert okkur grein fyrir því, allir Íslendingar, að fíkniefnavandinn fer vaxandi. Þess vegna held ég að við eigum að styðja myndarlega við starfsemi eins og þarna fer fram. Ég lýsi yfir því fyrir okkar hönd, í Frjálslynda flokknum, að við munum styðja slíka starfsemi af alhug. Ég er reyndar viss um að margir aðrir muni gera það. Ég vonast til að það sé réttur skilningur hjá mér, að það sé mikill vilji til að taka alvarlega og vel á þessu máli og því verði vandlega fylgt eftir. Í trausti þess hef ég ekki séð ástæðu til að flytja hér brtt. um fjárveitingar til starfsemi Byrgisins. Mér finnst þetta svo þarft þjóðfélagslegt mál að við hljótum að geta sameinast um það, hv. þingmenn, að leysa það myndarlega. Til þess hvet ég, herra forseti.

Ég vil láta þess getið, herra forseti, að ég er meðflm. að brtt. ásamt þingmönnum Vinstri grænna. Það eru auðvitað margar brtt. sem hér hafa verið fluttar, m.a. af Samfylkingunni og einnig af stjórnarliðum, sem við í Frjálslynda flokknum munum greiða atkvæði vegna þess að við teljum að þær horfi til bóta. Við í Frjálslynda flokknum höfum ævinlega lýst því yfir að við mundum styðja þær tillögur varðandi meðferð þingmála sem við teldum horfa til bóta í þjóðfélaginu, hver svo sem flytti þær.

Ég er 1. flm. að brtt. um málefni fatlaðra á Vestfjörðum. Þar er lagt til að veittar verði 7 millj. til viðbótar við þá fjárveitingu sem er til málaflokksins í fjárlagafrv. Ásamt mér flytur þessa tillögu hv. þm. Jón Bjarnason. Við teljum að þessi fjárveiting muni duga til að halda óbreyttri starfsemi og ekki þurfi að skera hana neitt niður ef þessi fjárveiting fæst á Vestfjörðum, eins og til stóð miðað við óbreytta fjárveitingu. Eðlilega mæli ég sérstaklega með því að þessi tillaga verði samþykkt.

Ég hef hins vegar séð í tillögum stjórnarliða að þeir eru búnir að setja inn 4 millj. kr. í þessu sambandi. Það er vissulega gott. Þar ber þá ekki nema 3 millj. kr. á milli. Í öllu því flóði tillagna sem hér hafa runnið inn, um að auka í þetta og auka í hitt, held ég að þær 3 milljónir sem þarna ber á milli geti varla talist sá ásteytingarsteinn að menn telji þurfa að skera það við nögl þannig að þrengt verði að starfsemi fyrir fatlaða á Vestfjörðum. Einkanlega held ég að þetta mundi snúa að aðstöðu fyrir fatlaða á Hólmavík. Ég hvet til þess að brtt. verði samþykkt.

Ég er hér meðflm. að annarri tillögu ásamt hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, sem er 1. flm., að tillögu um þróun kræklingaeldis. Við höfum í því þingskjali lagt til að settar verði 10 millj. kr. í það verkefni. Það var þannig við 2. umr. um fjárlögin að ekki voru ætlaðir neinir fjármunir til að styðja við kræklingaeldið og þróun þess. Það eru enn þá þrír eða fjórir aðilar sem hafa haldið út við að rækta krækling hér á landi og við töldum mikilvægt að tryggt yrði að þeir kæmust á það stig að taka ræktunina til vinnslu í landi og gera að söluvöru. Það hefur hingað til skort á að það tækist, m.a. vegna fjárskorts. Þess vegna lögðum við þessa tillögu fram. Við teljum að í framtíðinni verði hún þjóðfélaginu til mikilla bóta.

Ég held að takist hjá þessum þremur, fjórum aðilum sem enn þá eru í kræklingarækt að komast yfir á framleiðslustigið sé björninn unninn í þessu máli og aðrir geti sótt í þá þekkingu sem núverandi ræktendur hafa aflað sér. Þetta er ræktun sem kallar a.m.k. í upphafi ekki á mikið fé. Í upphafi þarf að leggja út fyrir köðlum og festingum til ræktunarinnar. Menn þurfa auðvitað að taka tillit til veðuraðstæðna og annars slíks en að öðru leyti þarf ekki að fæða kræklinginn, hann fær fæðu sína úr sjónum. Þetta er eldi sem ég held að geti komið mörgum til góða og þurfi ekki endilega að vera bundið við stórrekstur. Hér ættu menn að geta verið í smárekstri en það kann hins vegar að vera hagkvæmt fyrir menn að sameinast um úrvinnsluþáttinn þó að ræktendur væru margir, sérstaklega þar sem aðstæður henta, t.d. í stórum og djúpum fjörðum fyrir vestan, í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi; í Eyjafirði, við Hrísey þar sem verið er að rækta; í Mjóafirði og fjöldamörgum öðrum íslenskum fjörðum þar sem aðstæður eru góðar til kræklingaeldis.

Það hefur sýnt sig að áseta á útlögð tóg hefur verið mikil og mikill þéttleiki kræklingaskeljar, jafnvel svo mikill að menn hafa ekki áttað sig á því og misst hluta af því sem vaxið hefur niður af reipunum. En það má flokka undir byrjunarörðugleika, herra forseti. Hér er því um mjög þarft verkefni að ræða.

Ég er einnig meðflm. að tillögu sem snýr að framhaldsskóla Snæfellinga, ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem er 1. flm., og hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni. Þetta eru þær þrjár tillögur sem ég hef staðið að að flytja í hv. þingi. Ég hef auðvitað lýst því yfir í máli mínu að það eru fjöldamargar tillögur sem við hyggjumst styðja, hvaðan sem þær eru svo upprunnar, hvort sem þær eru frá Vinstri grænum, Samfylkingunni eða stjórnarliðum, við munum eingöngu líta á málin út frá því sem við teljum samfélaginu til hagsbóta, hvað við teljum rétt að leggja áherslu á. Menn verða auðvitað alltaf að velja og hafna í svona málum og sníða sér stakk eftir vexti. En það eru ýmsar brtt. sem við í Frjálslynda flokknum munum styðja. Ég geri ekki mikið ítarlegri grein fyrir því hér en get þó nefnt t.d. að það sem beinist að byggðamálum, Ríkisútvarpinu og heilbrigðisstofnunum, svo eitthvað sé nefnt, eru mál sem við munum styðja.

Ég tel sérstaka ástæðu til að huga vel að því að heilbrigðisstofnunum sé ekki mismunað eftir því hvar þær eru á landinu. Það kann ekki góðri lukku að stýra, herra forseti, að sumar stofnanir sem annast heilbrigðismál, þá kannski sérstaklega hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, fái úrlausnir og góðar og miklar fjárveitingar en sjúkrahús annars staðar á landinu séu látin sitja eftir. Það getur, herra forseti, orðið til þess að fólk verði óöruggt í starfi þar sem vantar fjármuni og þarf mikið aðhald. Þar verður starfsmönnum haldið í óvissu um hvort starfsemin haldi áfram í óbreyttri mynd. Þetta verður til þess, herra forseti, að fólk sem á einhverra kosta völ við að fá störf vegna menntunar sinnar, þjálfunar og þekkingar, færir sig á milli landshluta, fer frá sjúkrahúsunum úti á landi til höfuðborgarsvæðisins. Við búum hér til sjálfvirkt vandamál. Það er algjör óþarfi og í raun skaðlegt fyrir okkur.

[23:00]

Þess vegna held ég að við þurfum að líta heildstætt á vanda sjúkrastofnana og vera með svipaðar úrlausnir, þannig að við séum ekki að mynda sífellt mismunandi vægi fyrir fólk sem starfar á þeim stofnunum, því það er jú fólkið og þekking þess sem er dýrmætust í starfsemi hvers sjúkrahúss, auðvitað ásamt þeim tækjum sem við erum þegar búin að setja fjármuni í. Þeir fjármunir sem við erum búin að festa í tækjakosti góðra sjúkrahúsa eru náttúrlega illa nýttir ef við reynum ekki að nýta þá af fremsta megni, nóg er þörfin hjá sjúklingunum.

Það er auðvitað hægt að hafa langt og mikið mál um fjárlagafrv., af nógu er að taka þar. Hægt er að ræða hvernig ASÍ, heildarsamtök launþega hér á landi, komu inn í það ferli að tryggja að hér færi ekki allt úr böndunum í verðbólgumálum. Við eigum öll þeim samtökum og forustu þeirra mikið að þakka í því hvernig þeir tóku á þeim málum og þá kannski ekki síst ríkisstjórninni sem m.a. fyrir atbeina þeirra þurfti að draga ýmsar hækkanir til baka sem hafa svo orðið til þess að við erum að sigla niður með verðbólguna og horfum fram á kannski nokkuð stöðuga tíma, en það eru þó mjög mikil hættumerki á lofti. Við horfum fram á vaxandi atvinnuleysi og það er auðvitað mikill vágestur í þjóðfélagi okkar.

Við höfum ævinlega verið þeirrar skoðunar, Íslendingar, hygg ég að atvinna væri eitthvað sem við ættum rétt á og allir ættu að eiga kost á þokkalegri atvinnu. Og við höfum líka flestir Íslendingar held ég verið á þeirri skoðun að allir ættu að eiga kost á eðlilegu tryggingakerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi.

Að mörgu leyti er vaxandi misrétti á milli þegnanna í þjóðfélaginu. Það skapast kannski fyrst og fremst af því að annars vegar er þó nokkur fjöldi Íslendinga sem er að verða, hvað eigum við að segja, ofurríkir, milljarðamæringar, menn sem hafa miklar tekjur, t.d. fjármagnstekjur, og kom það fram í svari minnir mig við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að 96 einstaklingar hér á landi fá 116 millj. hver í fjármagnstekjur. Við sjáum það að sumir hafa hagnast vel og hafa mikla fjármuni milli handa, en á sama tíma verðum við þess greinilega vör að einnig eru að verða til hópar í þjóðfélaginu sem standa mjög höllum fæti. Það virðist svo að þrátt fyrir ríkidæmi margra og góða afkomu flestra, þá er samt vaxandi hópur fólks sem hefur það mjög bágt og er undir fátæktarmörkum. Það er ekki þróun sem við eigum að sætta okkur við í okkar þjóðfélagi og við hljótum að horfa til þess að þar megi úr bæta.

Herra forseti. Það er mikils virði eins og ég kom að áðan fyrir Íslendinga að halda hér uppi fullri atvinnu. Til þess eigum við að stofna og stjórna. Nú hefur það verið svo á undanförnum árum því miður að við höfum verið með stefnu í landinu í ýmsum atriðum, t.d. í sjávarútvegsmálum, sem ég tel að hafi verið fjandsamleg atvinnu fólksins, fjandsamleg réttindum þess og fjandsamleg byggðunum. Sjávarútvegsstefnan með frjálsu framsali aflaheimildanna hefur orðið til þess að fólki finnst það óöruggt í sjávarbyggðunum, það veit ekki framtíð sína, það veit að atvinnurétturinn er til sölu og þeir sem eru handhafar hans geta selt hann og hafa til þess fullan rétt eins og lögin eru úr garði gerð.

Mikil samþjöppun er í sjávarútvegi. Þau pláss sem töldu sig kannski fyrir ári vel stödd og örugg, þar finnst fólki í dag að það sé ekkert öruggt með sína framtíð, enda er það ekki svo. Um það tala dæmin skýru máli. Útgerðarstaðir sem margir hverjir höfðu blómlega stöðu fyrir nokkrum árum eru svo til aflaheimildalausir í dag. Margir útgerðarstaðirnir sem misstu aflaheimildir fyrir fimm til sex árum eða þaðan af fyrr, hafa reynt að rétta stöðu sína eða það fólk sem þar býr með því að sjómennirnir sem misstu atvinnuna fóru yfir í hið svokallaða smábátakerfi og reyndu þar með að tryggja afkomu sína, afkomu fjölskyldna sinna og að byggja upp líf sitt á þeim stöðum þar sem það vill búa.

Það er mikill misskilningur, herra forseti, að fólk vilji ekki búa í sjávarbyggðunum. Það er fullt af fólki sem vill búa þar. Fólk vill hins vegar vera visst um að það hafi trygga atvinnu, trygga undirstöðu. Þess þarf fólk á öllum svæðum við, íbúarnir þurfa að vita að þeir búi við nokkuð trygga og örugga atvinnumöguleika.

Þess vegna, herra forseti, er það svo að útfærsla okkar á fiskveiðikerfinu er fjandsamleg atvinnurétti fólksins. Stefnan er í raun og veru bara í eina átt, í átt til samþjöppunar þeirra sem hafa eignast mikið í útgerð hér á landi og mikið af aflaheimildum. Ég tel að það sé ekki góð stefna, þetta sé ekki atvinnustefna fyrir fólkið. Þetta er hins vegar örugglega eignastefna fyrir þá sem heimildirnar hafa eignast. Og örugglega eignastefna fyrir þá sem hafa á undanförnum árum verið að hagnast í sjávarútvegi og hafa náð þar yfirburðarstöðu og geta haldið áfram að taka til sín meira og meira af atvinnuréttinum. Afleiðingar þess eru hins vegar óöryggi fyrir fólk í sjávarbyggðunum og algjörlega óásættanleg framtíð. Þetta er engin byggðstefna, herra forseti. Þetta er akkúrat engin byggðastefna. Ég tel að það sé svo í raun og veru, herra forseti, að mesta vandamálið varðandi sjávarbyggðir á Íslandi sé núverandi útfærsla fiskveiðistefnunnar og hana beri að endurskoða frá grunni. Þar hefur orðið mikil samþjöppun eins og ég sagði áðan og þeir stóru eru að sameinast og skiptast á bréfum.

Hver skyldi nú vera framtíðarsýn þeirra sem horfa til þess að þetta sé hin rétta stefna, sem ég er alveg andvígur? Jú, hún er sú m.a. sem kemur fram í leiðara Dagblaðsins, ég held í morgun eða hvort það var í gær, en þar skrifar Óli Björn Kárason leiðara um að að sjálfsögðu sé það sjálfgefið mál að inn í sjávarútveginn eigi að streyma peningar erlendis frá og það eigi að vera krafa Íslendinga að þannig sé það.

Ég vil segja, herra forseti, að það er ekki gæfuleg framtíð fyrir íslenska þjóð ef svo fer að erlendir aðilar eignast hér óveiddan fiskinn í sjónum. En það getur ekkert annað skeð ef erlendir aðilar fara að fjárfesta í sjávarútvegi eins og nú er í pottinn búið, því aflaheimildirnar eru til sölu, allar. Síðast var smábátasjómönnum nauðgað inn í þetta kerfi. Það eru allar aflaheimildirnar til sölu og þar af leiðandi er sú krafa sem hér birtist í leiðara Dagblaðsins um að að sjálfsögðu eigi hér að streyma inn erlent fé og menn eigi að gera kröfu til þess hér á landi að fá erlent fé inn í sjávarútveginn. Það er að mínu viti alveg stórhættulegt eins og kerfið er úr garði gert og alveg borin von finnst mér ef við erum að hugsa um framtíð Íslendinga, atvinnumöguleika og að halda byggð í landinu, að opna fyrir það að þeir stóreignamenn sem núna eru í sjávarútvegi geti farið að selja mönnum í Evrópusambandinu eða einhverjum öðrum grúppum óveiddan fiskinn í sjónum. Þá erum við aftur komin í hið gamla vistarband og í raun og veru undir eignarhæl annarra ríkja, herra forseti.

Það er því fjölmargt sem mér finnst þurfa að varast. Ég dreg þetta hérna fram vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að Ísland framtíðarinnar verði ákaflega lítils virði ef það er ekki í byggð. Við ætlum að selja Ísland framtíðarinnar sem ferðamannaland, þannig hef ég a.m.k. skilið áherslur manna í ferðaþjónustunni. Ég hygg að Ísland framtíðarinnar verði ekki selt sem ferðamannaland nema það sé í byggð, því við munum ekki endalaust selja aðgang að eyðibyggðum, enda held ég að við séum komnir þar á nokkur tímamót eins og t.d. varðandi Hornstrandir. Ég er á þeirri skoðun að við verðum að fara að taka meira fé af þeim ferðamönnum sem þar ferðast en ekki bara að selja þeim fargjöldin til að koma þeim á Strandir og taka við þeim aftur. Það þarf að auka þjónustuna þar á svæðinu. Það þarf helst að vera einhver byggð á svæðinu og einhver þjónusta fyrir ferðamenn.

Ég tel að taka eigi upp þá stefnu hér á landi að halda landinu sem allra mest í byggð, til þess eigi að stefna. Og þá á ég jafnt við um sjávarútvegsstefnuna og landbúnaðarstefnuna. Það á að reyna að tryggja að menn geti notað landkosti Íslands bæði til sjávar og sveita og í því felist mikil verðmæti fyrir íslenska framtíð og íslenska þjóð.

Það er auðvitað fjöldamargt sem kemur í hugann þegar farið er að ræða þá framtíð sem ég hef hér nefnt, m.a. ferðaþjónustuna, arðsemi samgöngubóta og fjöldamargt annað sem við þurfum að skoða í því sambandi.

Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur nú á lokavaldadögum sínum gengið til þess verks að semja í nokkru við Landssamband eldri borgara og gera þar nokkra lagfæringu, þó þar sé skammt gengið og að mikill hluti af þeim lagfæringum sem þar eru gerðar muni koma til baka til ríkisins í skattgreiðslum. En þá fagna ég því samt sem þar er gert.

En það eru auðvitað ákveðin klókindi ríkisstjórnarinnar að halda mönnum í hálfgerðu svelti megnið af kjörtímabilinu, en semja svo rétt fyrir kosningar. Þetta er svipað og pottaburðurinn í sjávarútveginum þar sem menn eru að bera út hina góðu kosningapotta í smáskömmtum í kvótakerfinu. Þennan byggðapottinn og hinn byggðapottinn og steinbítspottinn og ýsupottinn og hvað þetta allt heitir. Menn gerðu auðvitað það sama í þessu. Menn rífast um afkomu sína eins og ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar allt kjörtímabilið við þessa ríkisstjórn, fara jafnvel í málaferli og vinna þau. Niðurstöðum er svo snarbreytt í meðförum ríkisstjórnarinnar og þær breytingar lögfestar í Alþingi til þess að breyta þeim niðurstöðum sem menn töldu sig hafa unnið fyrir dómi. En í lok kjörtímabilsins er gengið til samninga, enda mikið undir að tryggja einhver atkvæði þegar að vordögum kemur. Það er auðvitað það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera.

Ríkisstjórnin var líka að skrifa undir samkomulag við Samtök ísl. sveitarfélaga. Ég fagna því líka að það skuli hafa verið gert. En það er líka gert korteri fyrir kosningar. Allt eru þetta þau leiktjöld til að menn gleymi því nú hvernig það var að starfa og vinna í þjóðfélaginu undir þeim deilum sem hafa verið við lýði allt kjörtímabilið svo menn sérstaklega gleymi því þegar kemur fram á vordagana og muni eftir að setja krossinn á sama stað og þeir hafi alltaf gert áður svo að þeir fái nú sömu vandamálin og sömu stjórnina.

Herra forseti. Ég ætla rétt að vona að einhvern tíma öðlist Íslendingar þá visku og það minni að þeir muni á milli ára hvað hefur gerst.