Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:28:42 (2244)

2002-12-05 23:28:42# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessarar löngu umræðu, 3. umr. um fjárlagafrv. komandi árs. Eðlilega hefur margt borið á góma í dag í umræðunni því að það er rétt sem einhver þingmaður sagði fyrr í umræðunni að það er hægt að tala langt og mikið mál um fjárlagafrv. enda tengist það öllum þáttum þjóðlífsins og öllum þáttum hins opinbera rekstrar og þeirrar þjónustu og starfsemi sem ríkisvaldið stendur fyrir.

Ég ætla ekki að tala mikið um einstök atriði. Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um heildarmyndina sem nú blasir við þegar niðurstaða er fengin í umfjöllun Alþingis um það frv. sem fram kom af minni hálfu 1. október sl. Ég vil láta það koma fram að ég er býsna ánægður með þá niðurstöðu. Niðurstaðan er sú að afgangur í rekstri ríkisins, af rekstri ríkissjóðs, án tekna af sölu ríkiseigna er rúmlega 1.100 millj. kr. eða þar um bil. Að vísu er það nokkru minna en við gerðum ráð fyrir í upphafi þegar við ræddum um 2.200 millj. kr. á þennan mælikvarða en eigi að síður mjög viðunandi niðurstaða. Og því er við að bæta svo að því sé til haga haldið að 1.200 millj. til viðbótar eru sérstök fjármögnun sem renna á til jarðgangagerðar, fjármögnun af sölu ríkiseigna.

[23:30]

En þegar við tökum tillit til væntanlegs söluhagnaðar er ljóst að áætlaður tekjuafgangur á næsta ári er ríflega 11 milljarðar og verður það að teljast mjög ásættanleg niðurstaða. Enginn er að reyna að blekkja neinn með þessum tölum. Við gerum skýran greinarmun á því hver afgangurinn er með hagnaði af sölu eigna og hver hann er án þeirra tekna. En færslurnar í fjárlagafrv. eru að sjálfsögðu í samræmi við það sem lögin um fjárreiður ríkissjóðs gera ráð fyrir og allar sölutekjur umfram bókfært verðmæti eru færðar sem tekjur. Afgangurinn að frágengnum þessum tekjum hefur sem sagt minnkað og er núna u.þ.b. 1.100 millj. kr. eins og ég sagði.

Það má velta því fyrir sér hvort sú stærð sé viðunandi. Eins og ég sagði áðan þá tel ég að svo sé. Ég bendi á að ýmsir hafa haldið því fram að við þær aðstæður sem nú hafa skapast í þjóðarbúskap okkar þar sem nokkur slaki hefur myndast þá sé jafnvel réttlætanlegt, og meira að segja hafa sumir hvatt til þess, að afgreiða ekki ríkissjóð á þennan mælikvarða með afgangi heldur með einhverjum halla. Það mætti færa fyrir því rök að það væri eðlilegt að spýta pínulítið í, eins og menn segja, gefa aðeins út meira en gert er til þess að örva atvinnulífið, ráðast í meiri framkvæmdir af opinberri hálfu en ella o.s.frv. Um þetta má að sjálfsögðu deila og það hafa menn að sjálfsögðu gert. Það er athyglisvert að ýmsir sérfræðingar sem við höfum rætt við á vegum fjmrn. á undanförnum mánuðum hafa velt því fyrir sér hvort það væri í raun nauðsynlegt að skila ríkissjóði núna með afgangi.

En við höfum hins vegar valið, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, að vera varkár, vera réttum megin við strikið og ríflega það og taka enga áhættu með hin opinberu fjármál. Svo koma menn hér og saka okkur um að við séum að sólunda eignum almennings, að við séum að blekkja og við séum að taka alls kyns rangar ákvarðanir.

Mig langar til þess að fara aðeins yfir það í stórum dráttum hvað er að gerast hér á árinu 2002 og 2003 að því er varðar heildarmyndina. Ég ætla ekki að fara yfir heildarþjóðhagsmyndina eins og hv. þm. Ágúst Einarsson gerði hér fyrr í kvöld og að mér fannst ágætlega heldur ætla ég að einskorða mig við það hvað verður um afgang ríkissjóðs og þeirra verðmæta sem hann hefur úr að moða á næsta ári til viðbótar því sem liggur fyrir varðandi þetta ár.

Sumir hafa sagt sem svo: ,,Það var gert ráð fyrir því í sjóðsyfirlitinu fyrir árið 2002 að hér yrði 38 milljarða lánsfjárafgangur. En hann verður ekki nema 3--4 milljarðar.`` Þetta er rétt. Þetta er vegna þess að ekkert varð af sölu Landssímans í árslok 2001, en reiknað var með því að það fjármagn kæmi inn í sjóðstreymið á árinu 2002. Og kaupverð af bönkunum verður ekki innt af hendi fyrr en á næsta ári þannig að þær koma ekki til greiðslu fyrr en þá. Þar munar því um u.þ.b. 36 milljarða sem er nokkurn veginn sú tala sem þarna skeikaði. Á þessu eru eðlilegar skýringar. En menn verða hins vegar að horfa á árin tvö saman, 2002 og 2003. Þá þarf líka að hafa auga á þeirri staðreynd að við tókum sérstakt 25 milljarða lán í fyrra sem að stærstum hluta hefur verið notað til þess að efla stöðu Seðlabankans, bæði eigið fé og gjaldeyrisstöðu hans.

Sú staðreynd að söluandvirði viðskiptabankanna færist nú yfir áramót veldur því að fjármunahreyfingar á næsta ári, þ.e. inngreiðslur, verða miklu meiri en annars og munar þar um 30 milljörðum og lánsfjárafgangur á næsta ári verður 23,7 milljarðar miðað við þá áætlun sem nú liggur fyrir. Ætlunin er að ráðstafa honum þannig að til greiðslu lána umfram ný lán sem tekin kunna að verða fari u.þ.b. 13,5 milljarðar. 7,5 milljarðar munu ganga til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til þess að grynnka á skuldbindingum þar og 2,5--3 milljarðar fara til þess að bæta stöðu ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þetta er nú það sem verið er að gera við þennan lánsfjárafgang. Það er verið að bæta stöðuna, bæta stöðu ríkissjóðs hvert sem litið er, greiða niður lán, borga upp í skuldbindingar sem ella koma í hausinn á okkur eftir nokkur ár og byggja upp eignir í Seðlabanka og annars staðar. Skuldirnar lækka um um það bil 6 milljarða á tveimur árum. Fyrirframgreiðslan í LSR verður 16,5 milljarðar á þessum tveimur árum og staða við Seðlabanka batnar um 4,5--5 milljarða.

Ef við síðan tökum til viðbótar þau stofnframlög sem við höfum innt af hendi til Seðlabankans á þessu ári, stofnfjárframlög til annarra fyrirtækja sem ráðgert er að ráðast í, eins og t.d. Farice-strenginn, það fjármagn sem varið var til að kaupa Orkubú Vestfjarða og fleira í þeim dúr, þá sjáum við að söluhagnaður eigna á þessum árum hefur allur farið í að styrkja stöðu ríkissjóðs, annaðhvort með því að lækka skuldir, með því að borga inn í LSR eða með því að byggja upp eignir annars staðar.

Þess vegna er alveg af og frá að gefa það í skyn eða orða það með einhverjum óljósum hætti að verið sé að taka þennan söluhagnað og sólunda honum á kostnað komandi kynslóða. Það stenst ekki og það geta allir séð sem kynna sér þessi mál.

Ég sagðist ekki ætla að fara út í þjóðhagsstærðirnar. Þó vil ég geta þess að sú mynd sem ég hef hér verið að draga upp og menn hafa keppst við í allan dag að gera lítið úr --- þeir hafa keppst við að halda því fram að það mætti jú eyða meiru í þetta og það mætti eyða meiru í hitt og vissulega er það allt saman gott og gilt ef menn missa ekki sjónar á heildarmarkmiðunum --- en þessi afkoma okkar hér og þessi niðurstaða varðandi ríkisfjármálin ásamt öðru því sem hér hefur verið að gerast í efnahagslífinu, þróuninni varðandi verðlag, þróuninni varðandi viðskiptajöfnuð, vaxtaþróuninni og því að hagvöxtur er fyrirsjáanlegur á nýjan leik strax á næsta ári, allt þetta hefur gert það að verkum að staða okkar Íslendinga sem lántakenda á erlendum mörkuðum hefur enn batnað frá því sem var.

Má ég benda mönnum á að íslenska ríkið er komið í sama gæðaflokk á erlendum lánamarkaði og bandaríska ríkið að mati annars af tveimur stærstu matsfyrirtækjum og lánshæfisfyrirtækjum í heiminum. Moody's sem er víðþekkt lánshæfisfyrirtæki hefur hækkað Íslendinga í efsta flokk og Standard & Poor's sem er annað svona fyrirtæki hefur líka bætt mat sitt á horfunum í íslensku efnahagslífi.

Af hverju skyldi þetta nú vera? Er þetta vegna þess að það er allt hér í kaldakoli eins og sumir halda fram? Auðvitað ekki. Það er vegna þess að það er einmitt ekki allt í kaldakoli og hér hefur verið haldið á spöðunum af skynsemi. Og ríkisfjármálapakkinn er að sjálfsögðu lykilatriði í því öllu saman.

Herra forseti. Hvað þýðir það þegar íslenska ríkið kemst í hæsta gæðaflokk með skuldbindingar sínar í útlöndum? Það þýðir m.a. að ríkið fær betri vaxtakjör. Það hefur þau áhrif að aðrir íslenskir lántakendur fá líka betri vaxtakjör í skjóli ríkisins vegna þess að ríkið setur grunninn. Það þýðir líka að ýmsir aðilar úti í heimi sem búa við ákveðnar reglur um hvaða skuldabréf þeir mega kaupa og mega ekki kaupa nema skuldabréf í efsta flokki, geta núna keypt skuldabréf íslenska ríkisins ef þau verða á boðstólum. Markaðurinn breikkar. Möguleikar okkar á þessu sviði aukast. Auðvitað skiptir þetta allt alveg gríðarlega miklu máli.

Þetta þýðir þó ekki að við eigum að vaða út í heim og fara að taka meiri lán í nafni ríkisins. En þetta þýðir að ef til þess kemur, sem auðvitað er alltaf í einhverjum mæli, þá fáum við nú enn betri kjör en áður. Ég vildi benda á þetta hér í umræðunni. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt. Mörgum hefur yfirsést hversu mikilvæg ríkisfjármálaþróunin er í þessu dæmi öllu saman. Sú staðreynd að við erum að grynnka á skuldum okkar, að við erum að búa í haginn t.d. með því að draga úr skuldbindingum hjá LSR, að við erum að byggja upp eignir í Seðlabankanum og annars staðar, hefur gríðarlega mikla þýðingu.

Þetta vildi ég segja að lokum, herra forseti, um leið og ég þakka fyrir ágætar umræður hér þegar á heildina er litið. Auk þess vil ég sérstaklega þakka fjárlaganefndarmönnum og sömuleiðis öðrum þingmönnum, formanni og varaformanni fjárln. sérstaklega og forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna í fjárln. fyrir að hafa beitt sér fyrir því að nú getum við þriðja árið í röð afgreitt fjárlögin á Alþingi samkvæmt þeirri tímaáætlun sem lagt var upp með í upphafi.

Reyndar er 3. umr. fjárlaga degi fyrr en gert var ráð fyrir. Þetta er til mikillar fyrirmyndar. Þetta er öllum þeim sem hafa lagt þessu máli lið í fjárln. til mikils sóma fyrir nú utan hvað þetta greiðir fyrir allri starfsemi ráðuneyta og ríkisstofnana sem þurfa að fara að skipuleggja starfsemi sína og gera fjárhagsáætlanir sínar á grundvelli nýrra fjárlaga.