Fjárlög 2003

Fimmtudaginn 05. desember 2002, kl. 23:47:04 (2247)

2002-12-05 23:47:04# 128. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 128. lþ.

[23:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég má vera að því að hlusta á hæstv. ráðherra, ég var að leita ráða hjá mönnum sem eru ekki síður fróðir um þessi efni en ég en eftir því sem ég skil þetta mál vísa fjáraukalög til þessa árs. Og þar er verið að færa til bókar söluandvirði sem ekki kemur inn á þessu ári. (Gripið fram í.) Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé gert til þess að fegra útkomu þessa árs. Það er verið að loka bókhaldinu með hliðsjón af greiðslum sem koma ekki inn á þessu ári. Ég er ósammála því að það skipti engu máli hvenær þetta raunverulega gerist. Það gerir það heldur betur og það held ég að þeir segi, hinir lukkulegu framsóknarmenn sem eru í forsvari fyrir þessi fyrirtæki sem eru að gleypa Búnaðarbankann, svona á helmingaskiptareglu ríkisstjórnarinnar. Þeir eru mjög ánægðir með þetta vegna þess að þeir munu aldrei koma til með að leggja út fyrir þessum eignum. Þeir munu slá lán grundvölluð á veði í þessum pakka sem verið er að færa þeim í hendur.

Varðandi ágreining um einkavæðinguna er hann af tvennum toga, annars vegar hugmyndafræðilegur sem snýr þá að því hver félagsleg áhrif af þessum breytingum verða og hins vegar er þetta bara spurning um krónur, aura og hagkvæmnissjónarmið.

Við höfum haldið því fram að þær kerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, t.d. hjá dvalarheimilum aldraðra sem ég get tekið dæmi um en hirði ekki um að nefna hér, séu miklu kostnaðarsamari fyrir ríkissjóð, fyrir skattborgarann, samkvæmt þeim formúlum sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með. Við höfum gagnrýnt vinnubrögð hennar að þessu leyti, að hún haldi ekki nægilega vel á spöðunum fyrir hönd skattborgarans. Þarna beinist gagnrýni okkar bæði að félagslega þættinum en ekki síður að krónum, aurum og hagsmunum skattborgaranna.